Töluvert minni losun vegna flugrekstrar

Með falli WOW air þá hefur losun íslenskra flugrekanda dregist verulega saman.

Nú er uppgjöri íslenskra þátttakenda í viðskiptakerfi ESB með lostunarkvóta er lokið og niðurstaðan er sú að raunlosun íslenskra flugrekenda nam 596 þúsund tonnum. Það jafngildir samdrætti upp á 37,6 prósent á milli áranna 2018 og 2019.

Skýringin á því liggur í færri þátttakendum samkvæmt því sem segir í frétt á vef Umhverfisstofnunnar, umsjónaraðila viðskiptakerfisins hér á landi. Það var einmitt í mars í fyrra sem WOW air varð gjaldþrota en félagið var á tímabili orðið álíka umsvifamikið í farþegaflugi og Icelandair.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugrekstur í fyrra var því svipaður og árið 2015 en þá hóf WOW air einmitt Ameríkuflug.

Athygli vekur að losun Icelandair jókst umtalsvert í fyrra eða úr 501 þúsund tonni í nærri 568 þúsund tonn. Það jafngildir 13 prósent aukningu. Á sama tíma jókst sætaframboð félagsins um þrjá af hundraði.

Meginskýringin á þessari viðbótarlosun flugfélagsins var aukin áhersla á áætlunarferðir til annarra Evrópuríkja. Fyrrnefndar losunartölur taka nefnilega aðeins til flugferða innan evrópskrar flughelgi. Einnig spilar inn í að MAX þotur Icelandair voru kyrrsettar í mars í fyrra en þær eru mun sparneyttari en eldri flugvélar félagsins og menga því minna.

Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, bendir jafnframt á að heildarlosun Icelandair hafi í fyrra aukist um þrjú prósent og er þá horft til allra flugferða félagsins en ekki bara Evrópuflugs.