Undirbúa aðgerðir komi til gjaldþrots Icelandair

Það styttist hlutafjárútboð Icelandair þar sem stefnt er að 30 milljörðum króna sem eiga að koma félaginu í gegnum núverandi krísu.

Mynd: Icelandair / Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Eftir viku ætla stjórnendur Icelandair Group að ljúka viðræðum við kröfuhafa, leigusala, Boeing og stjórnvöld í tengslum við boðað hlutafjárútboð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í áætlun sem kynnt var hluthöfum Icelandair samsteypunnar í lok maí.

Dagana 16. til 22. júní er svo stefnt að því að gefa út fjárfestakynningu og birta skilmála útboðsins. Þar er ætlunin að safna um þrjátíu milljörðum króna en lánadrottnum býðst þó að breyta hluta af kröfum sínum í hlutafé. Meðal stærstu kröfuhafa Icelandair eru ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbanki.

Strax í byrjun næsta mánaðar eiga niðurstöður hlutafjárútboðsins að liggja fyrir. Því má segja að örlög Icelandair ráðist eftir rúmar þrjár vikur. Og innan stjórnarráðsins hefur að undanförnu verið settur aukinn þungi í gerð áætlunar sem hrundið verður í framkvæmd ef útboðið heppnast ekki eða ef Icelandair fer í þrot. Þetta herma heimildir Túrista.

Í þeirri vinnu mun vera horft til þess hvernig flytja megi núverandi flugrekstrarleyfi yfir í nýtt fyrirtæki án þess að flugsamgöngur falli niður í lengri tíma.

Þar skiptir sköpum að fá fljótt afnot af Boeing þotum Icelandair af því gefnu að samningar takist við flugstéttir sem hafa réttindi á viðkomandi flugvélagerð. Of tímafrekt væri á þessum tímapunkti að skipta yfir í Airbus flugvélar.

Nýtt félag gæti ólíklega gengið að sömu lendingarleyfum og Icelandair er með í dag, sérstaklega ekki við Heathrow í London. Við fall Monarch flugfélagsins árið 2017 runnu til að mynda lendingarleyfi félagsins í Bretlandi inn í þrotabú þess félags.

Í öðrum löndum en Bretlandi eru lendingarleyfi ekki réttindi sem ganga kaupum og sölum á milli flugfélaga. Og vegna heimsfaraldursins þá stefnir í að töluvert verði af lausum tímum á flugvöllum sem annars eru þéttsetnir, t.d. Gatwick í London þar sem bæði British Airways og Virgin Atlantic ætla að draga úr starfsemi þar.

Úrlausnarefnin sem horft er til komi til falls Icelandair Group eru skiljanlega miklu fleiri. Til að mynda staða annarra dótturfélaga en Icelandair sjálfs en undir samsteypuna heyra flugþjónustufyrirtækið IGS, ferðaskrifstofurnar Iceland Travel og Vita, fraktflutningar Icelandair og Loftleiðir. Rekstur Air Iceland Connect og Icelandair var aftur á móti sameinaður í ársbyrjun.

Þess má geta að komi til þess að Icelandair fari í þrot þá ættu almennir farþegar að fá farmiða endurgreidda í gegnum greiðslukortafyrirtæki. Um leið er þó engin trygging fyrir því að farþegarnir endurbóki með nýju félagi. Þar með er hætta á samdrátturinn í ferðaþjónustunni yrði ennþá meiri en ef Icelandair kemst í gegnum krísuna.