Undirbúa aðgerðir komi til gjald­þrots Icelandair

Það styttist hlutafjárútboð Icelandair þar sem stefnt er að 30 milljörðum króna sem eiga að koma félaginu í gegnum núverandi krísu.

Mynd: Icelandair / Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Eftir viku ætla stjórn­endur Icelandair Group að ljúka viðræðum við kröfu­hafa, leigu­sala, Boeing og stjórn­völd í tengslum við boðað hluta­fjárútboð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í áætlun sem kynnt var hlut­höfum Icelandair samsteyp­unnar í lok maí.

Dagana 16. til 22. júní er svo stefnt að því að gefa út fjár­festa­kynn­ingu og birta skil­mála útboðsins. Þar er ætlunin að safna um þrjátíu millj­örðum króna en lána­drottnum býðst þó að breyta hluta af kröfum sínum í hlutafé. Meðal stærstu kröfu­hafa Icelandair eru ríkis­bank­arnir tveir, Íslands­banki og Lands­banki.

Strax í byrjun næsta mánaðar eiga niður­stöður hluta­fjárút­boðsins að liggja fyrir. Því má segja að örlög Icelandair ráðist eftir rúmar þrjár vikur. Og innan stjórn­ar­ráðsins hefur að undan­förnu verið settur aukinn þungi í gerð áætl­unar sem hrundið verður í fram­kvæmd ef útboðið heppnast ekki eða ef Icelandair fer í þrot. Þetta herma heim­ildir Túrista.

Í þeirri vinnu mun vera horft til þess hvernig flytja megi núver­andi flugrekstr­ar­leyfi yfir í nýtt fyrir­tæki án þess að flug­sam­göngur falli niður í lengri tíma.

Þar skiptir sköpum að fá fljótt afnot af Boeing þotum Icelandair af því gefnu að samn­ingar takist við flug­stéttir sem hafa rétt­indi á viðkom­andi flug­véla­gerð. Of tíma­frekt væri á þessum tíma­punkti að skipta yfir í Airbus flug­vélar.

Nýtt félag gæti ólík­lega gengið að sömu lend­ing­ar­leyfum og Icelandair er með í dag, sérstak­lega ekki við Heathrow í London. Við fall Monarch flug­fé­lagsins árið 2017 runnu til að mynda lend­ing­ar­leyfi félagsins í Bretlandi inn í þrotabú þess félags.

Í öðrum löndum en Bretlandi eru lend­ing­ar­leyfi ekki rétt­indi sem ganga kaupum og sölum á milli flug­fé­laga. Og vegna heims­far­ald­ursins þá stefnir í að tölu­vert verði af lausum tímum á flug­völlum sem annars eru þétt­setnir, t.d. Gatwick í London þar sem bæði British Airways og Virgin Atlantic ætla að draga úr starf­semi þar.

Úrlausn­ar­efnin sem horft er til komi til falls Icelandair Group eru skilj­an­lega miklu fleiri. Til að mynda staða annarra dótt­ur­fé­laga en Icelandair sjálfs en undir samsteypuna heyra flug­þjón­ustu­fyr­ir­tækið IGS, ferða­skrif­stof­urnar Iceland Travel og Vita, frakt­flutn­ingar Icelandair og Loft­leiðir. Rekstur Air Iceland Connect og Icelandair var aftur á móti samein­aður í ársbyrjun.

Þess má geta að komi til þess að Icelandair fari í þrot þá ættu almennir farþegar að fá farmiða endur­greidda í gegnum greiðslu­korta­fyr­ir­tæki. Um leið er þó engin trygging fyrir því að farþeg­arnir endur­bóki með nýju félagi. Þar með er hætta á samdrátt­urinn í ferða­þjón­ust­unni yrði ennþá meiri en ef Icelandair kemst í gegnum krísuna.