Vilja loftbrú til Íslands og níu annarra Evrópuríkja

Breskir ferðafrömuðir eru ósáttir við kröfur yfirvalda þar í landi um að Bretar sem fara út í heim þurfi í sóttkví.

Breskir ferðafrömuðir vilja koma viðskiptavinum sínum til Íslands í sumar. Mynd: Guus Baggermans

Bretar sem snúa heim eftir frí í útlöndum þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví. Alveg óháð því hvar í heiminum þeir hafa verið. Þessi krafa veldur stjórnendum breskra ferðaskrifstofa áhyggjum því þeir óttast að fáir Bretar nenni að leggja á sig ferðalag til útlanda ef þeirra bíður svo hálfs mánaðar sóttkví heima.

Til að koma til móts við ferðageirann hafa bresk stjórnvöld viðrað hugmyndir um að koma á svokölluðum loftbrúm til annarra landa. Þeir farþegar sem myndu nýta sér þessar samgöngur þyrftu þá ekki að fara í sóttkví við komuna til Bretlands.

Og samkvæmt óskalista sem samtök óháðra ferðaskrifstofa í Bretlandi, skiluðu til breskra ráðamanna nú í morgun, þá er Ísland eitt þeirra tíu landa sem samtökin vilja sjá loftbrú til.

Ísland er þar í sæti númer átta eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan en hann byggir á svörum frá um fjögur þúsund viðskiptavinum ferðaskrifstofanna.

Bretar hafa verið næst fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi síðustu ár. Og yfir vetrarmánuðina eru þeir oftar en ekki fjölmennastir. Þannig komu hingað nærri 43 þúsund Bretar í febrúar í fyrra en yfir sumarmánuðina þrjá komu hingað samtals um 33 þúsund Bretar.

Löndin sem samtökin Advantage Travel Partnership í Bretlandi vilja sjá loftbrú til nú í sumar:

  1. Spánn
  2. Grikkland
  3. Tyrkland
  4. Ítalía
  5. Kýpur
  6. Portúgal
  7. Frakkland
  8. Ísland
  9. Egyptaland
  10. Malta

Kæri lesandi, ef þér þykir gagn í skrifum Túrista þá sérðu kannski tækifæri í að styðja við útgáfuna með eingreiðslu eða mánaðarlegum framlögum. Sjá hér.