Vonbrigði yfir háu gjaldi á skimun ferðamanna

Forsvarsfólk Gray Line bendir á að fyrir hvern ferðamann sem ákveður að koma ekki hingað vegna nýja gjaldsins þá verður þjóðfélagið af 250 þúsund króna gjaldeyristekjum að meðaltali.

airportexpress
Rúta á vegum Gray Line við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd: Gray Line

Gray Line á Íslandi lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun að innheimta 15 þúsund krónur fyrir Covid-19 skimun hjá ferðamönnum. Þessi gjaldtaka vinnur gegn öllum áformum um að koma ferðaþjónustunni aftur í gang, draga úr atvinnuleysi og auka gjaldeyristekjur segir í tilkynningu.

„Gjaldið leggst illa í erlenda ferðaskipuleggjendur. Í samskiptum við okkur hjá Gray Line tala þeir tæpitungulaust um að þessi hái og óvænti viðbótarkostnaður sé rothögg og geti gert útslagið við ákvörðun ferðamanna um val á áfangastað,“ kemur fram í tilkynningu.

Þar segir jafnframt að fjöldi lækna hafi fært góð rök fyrir því að skimun á ferðamönnum sé til lítils og geti gefið falskt öryggi. „Sóttvarnalæknir benti á það í byrjun faraldursins að erlendir ferðamenn hefðu ekki verið smitvaldar, heldur Íslendingar í samskiptum við Íslendinga. Færa má rök fyrir því að ferðamenn fari varlegar í samskiptum ef þeir eru ekki skimaðir við komuna til landsins. Þeir hugi þá betur að fjarlægðarreglunni, handþvotti og öðrum vörnum heldur en ef þeir hafa fengið vottorð um að vera ekki smitaðir.“