Áætlunarferðir hópferðabíla eru skattskyldar

Aðeins akstur sem er bundinn einkarétti er undanþeginn virðisaukaskatti líkt og fram kemur í nýju áliti Skattsins. Eitt af þeim fyrirtækjum sem býður upp á akstur með flugfarþega til og frá Keflavíkurflugvelli hefur aftur á móti ekki innheimt virðisaukaskatt af sinni starfsemi. Öfugt við keppinautanna.

Farþegar við rútur Airport Direct og Flugrútunnar. MYND: TÚRISTI

Það eru þrjú fyrirtæki sem halda úti sætaferðum milli höfuðborgarinnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Tvö þeirra, Kynnisferðir og Allrahanda/Gray line, greiða virðisaukaskatt af farmiðatekjum sínum en Reykjavik Sightseeing, sem rekur Airport Direct, gerir það ekki.

Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða, sem rekur Flugrútuna, vakti máls á þessu ósamræmi í frétt Vísis í febrúar sl. Sagði hann skýringuna á þessu liggja í mismunandi túlkun á því hvað fellur undir almenningssamgöngur en þær eru undanþegnar virðisaukaskatti. 

Hjá Kynnisferðum hefur ekki verið litið á ferðirnar til og frá Keflavíkurflugvelli sem almenningssamgöngur þar sem samkeppni ríkir á þeirri leið líkt og Björn útskýrði í frétt Vísis.

Forsvarsfólk Allrahanda/Gray line lagði sama skilning í reglurnar en óskaði í mars eftir áliti Skattsins á því hvort áætlunarferðir til og frá Keflavíkurflugvelli féllu í raun undir sérstakt undanþáguákvæði skattalaga.

Samkvæmt svari Skattsins, sem Túristi hefur undir höndum, þá fæst undanþága frá virðisaukaskatti aðeins þar sem einkaréttur til fólksflutninga gildir, t.d í tengslum við almenningssamgöngur. En líkt og áður segir þá eru fyrrnefnd þrjú fyrirtæki í samkeppni í akstri með flugfarþega til og frá Keflavíkurflugvelli.

Í frétt Vísis kom fram að Kynnisferðir hefður greitt hundruðir milljóna í virðisaukaskatt vegna Flugrútunnar eftir að hópbílaakstur fór inn í virðisaukaskattskerfið árið 2016. Af þeirri starfsemi ber að greiða 11 prósent í vsk.

Þess má geta að Samkeppniseftirlitið gaf grænt ljós á samrunaviðræður Allrahanda/Gray line og Reykjavik Sightseeing um síðustu áramót. Ekkert varð af sameiningunni. Reykjavík Sightseeing er dótturfyrirtæki Hópbíla.