Áætl­un­ar­ferðir hópferða­bíla eru skatt­skyldar

Aðeins akstur sem er bundinn einkarétti er undanþeginn virðisaukaskatti líkt og fram kemur í nýju áliti Skattsins. Eitt af þeim fyrirtækjum sem býður upp á akstur með flugfarþega til og frá Keflavíkurflugvelli hefur aftur á móti ekki innheimt virðisaukaskatt af sinni starfsemi. Öfugt við keppinautanna.

Farþegar við rútur Airport Direct og Flugrútunnar. MYND: TÚRISTI

Það eru þrjú fyrir­tæki sem halda úti sæta­ferðum milli höfuð­borg­ar­innar og Flug­stöðvar Leifs Eiríks­sonar. Tvö þeirra, Kynn­is­ferðir og Allrahanda/Gray line, greiða virð­is­auka­skatt af farmiða­tekjum sínum en Reykjavik Sight­seeing, sem rekur Airport Direct, gerir það ekki.

Björn Ragn­arsson, forstjóri Kynn­is­ferða, sem rekur Flugrútuna, vakti máls á þessu ósam­ræmi í frétt Vísis í febrúar sl. Sagði hann skýr­inguna á þessu liggja í mismun­andi túlkun á því hvað fellur undir almen­bings­sam­göngur en þær eru undan­þegnar virð­is­auka­skatti. 

Hjá Kynn­is­ferðum hefur ekki verið litið á ferð­irnar til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli sem almenn­ings­sam­göngur þar sem samkeppni ríkir á þeirri leið líkt og Björn útskýrði í frétt Vísis.

Forsvars­fólk Allrahanda/Gray line lagði sama skilning í regl­urnar en óskaði í mars eftir áliti Skattsins á því hvort áætl­un­ar­ferðir til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli féllu í raun undir sérstakt undan­þágu­ákvæði skatta­laga.

Samkvæmt svari Skattsins, sem Túristi hefur undir höndum, þá fæst undan­þága frá virð­is­auka­skatti aðeins þar sem einka­réttur til fólks­flutn­inga gildir, t.d í tengslum við almenn­ings­sam­göngur. En líkt og áður segir þá eru fyrr­nefnd þrjú fyrir­tæki í samkeppni í akstri með flug­far­þega til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli.

Í frétt Vísis kom fram að Kynn­is­ferðir hefður greitt hundruðir milljóna í virð­is­auka­skatt vegna Flugrút­unnar eftir að hópbíla­akstur fór inn í virð­is­auka­skatt­s­kerfið árið 2016. Af þeirri starf­semi ber að greiða 11 prósent í vsk.

Þess má geta að Samkeppnis­eft­ir­litið gaf grænt ljós á samruna­við­ræður Allrahanda/Gray line og Reykjavik Sight­seeing um síðustu áramót. Ekkert varð af samein­ing­unni. Reykjavík Sight­seeing er dótt­ur­fyr­ir­tæki Hópbíla.