Áfram unnið að samruna Kynnisferða og hluta af fyrirtækjum Eldeyjar

Mikill meirihluti hluthafa í fjárfestingasjóðunum Eldey lagði honum til aukið fé í tengslum við sameiningu við Kynnisferðir.

Skjámynd af vef Eldey

Fjárfestingasjóðurinn Eldey hefur verið starfræktur í nærri fimm ár og frá stofnun hefur verið einblínt á fjárfestingar í fyrirtækjum sem sérhæfa sig í afþreyingu fyrir ferðafólk.

Í vor var svo undirritað samkomulag um sameiningu Kynnisferða og hluta af eignasafni Eldeyjar. Í tengslum við þennan samruna var ráðist í hlutafjáraukningu í fjárfestingasjóðnum upp á hálfan milljarð króna en upphaflega stóð þó til að kalla eftir mun meira hlutafé líkt og Túristi hefur áður fjallað um.

Mikill meirihluti hluthafa lagði Eldeyju til aukið fé en það eru lífeyrissjóðir sem fara samtals með um sjötíu prósent hlut í fjárfestingasjóðnum. Markmið hlutafjáraukningarinnar var að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækja sjóðsins í gegnum kórónuveirukreppuna samkvæmt svari við fyrirspurn Túrista.

Þar segir jafnframt að undirbúningur samruna við Kynnisferðir sé í góðum farvegi og áreiðanleikakönnun lokið.

Eldey hefur þó verið rekin með umtalsverðu tapi síðustu tvö ár sem skrifast að miklu leyti á þá virðisrýrnun eigna sem gera þurfti eftir á vegna áhrifa Covid-19 líkt og komið hefur fram.