Afturvirk gjaldtaka Isavia kynni að hafa alvarlegar afleiðingar

Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað þurft að skoða hvernig staðið er að gjaldtöku af rútufyrirtækjum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í nýjum tilmælum eftirlitsins er skorað á stjórnendur Isavia að láta af áformum um innheimtu gjalda frá 2018.

Flugrútan og Airport Direct buðu hæsta þóknun í útboði Isavia sumarið 2017.

Tekjur Isavia af rútustæðum fyrir utan Leifsstöð hækkuðu umtalsvert í kjölfar útboðs á aðstöðu fyrir sætaferðir fyrir rúmum tveimur árum síðan. Síðan þá hafa Kynnisferðir og Airport Direct greitt að jafnaði um milljón krónur á dag í þóknun til Isavia líkt og Túristi rakti í grein í vor.

Til að standa vörð um þessa tekjulind þá hóf Isavia gjaldtöku á svokölluðum fjarstæðum við Leifsstöð. Það stæði nota rútufyrirtæki sem sækja hópa ferðamanna á Keflavíkurflugvöll og eins Gray line/Airport Express fyrir reglulegar sætaferðir sínar til Reykjavíkur í samkeppni við .

Forsvarsfólk Keflavíkurflugvallar stöðvaði þó gjaldtökuna á þessu fjarstæði tímabundið árið 2018 í kjölfar úrskurðar Samkeppniseftirlitsins. Aftur á móti hafa stjórnendur Isavia boðað afturvirka gjaldtöku vegna þessa tímabils samkvæmt því sem segir í nýjum tilmælum sem Samkeppniseftirlitið gaf út í gær. Þar eru stjórnendur Isavia beðnir um grípa ekki til innheimtu.

„Samkeppniseftirlitið telur að ef af þessari afturvirku gjaldtöku yrði kynni hún að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir mörg hópferðafyrirtæki og líklega fela í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga. Má búast við að slík afturvirk gjaldtaka yrði rannsökuð af Samkeppniseftirlitinu í sérstöku stjórnsýslumáli. Er þeim tilmælum því einnig beint til Isavia að grípa ekki til afturvirkrar gjaldtöku á fjarstæðum vegna tímabila sem liðin eru við töku þessarar ákvörðunar,“ segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins.

Þar er þeim tilmælum einnig beint til Isavia að endurskoða fyrirkomulagið sem nú gildir varðandi úthlutun á aðstöðu fyrir hópferðabíla við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.