Bíða ráðlegginga sóttvarnarlæknis varðandi stöðuna á Keflavíkurflugvelli

Samhæfingarteymi stjórnvalda kom saman í dag til að ræða þá stöðu sem komin eru upp vegna aukins farþegaflugs.

MYND: ISAVIA

Það er útlit fyrir að aflýsa þurfi fjölda flugferða til Íslands á næstunni þar sem umferðin til landsins er að aukast. Ástæðan er sú að afkastagetan í sýnatöku í Flugstöð Leifs Eiríkssonar takmarkast við tvö þúsund farþega á sólarhring. Líkt og Túristi hefur fjallað um síðustu daga þá liggur ekki fyrir hvernig staðið verði að því að velja milli flugferða.

Samhæfingarteymi stjórnvalda kom saman í dag vegna ástandsins en upphaflega stóð til að hópurinn myndi hittast á miðvikudaginn. Að sögn Páls Þórhallssonar, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, sem leiðir samhæfingarteymið, þá eru valkostirnir í stöðunni í raun tveir.

Í fyrsta lagi að framfylgja stíft þessu þaki sem afkastagetan í sýnatökunni setur en í öðru lagi að fjölga löndunum sem eru á örugga listanum svokallaða. Á honum eru í dag Grænland og Færeyjar. Þar með þurfa farþegar frá þessum löndum ekki í sýnatöku né sóttkví við komuna til Íslands.

Páll segir að það sé núna verk sóttvarnarlæknis að koma með tillögu að næstu skrefum og hún byggi þá á þeim niðurstöðum sem fengist hafa í skimuninni nú þegar.

Samkvæmt heimildum Túrista þá stefnir í að aflýsa þurfi tíu til tólf ferðum til Keflavíkurflugvallar í lok vikunnar og álíka mörgum í næstu viku vegna takmörkunarinnar. Gera má ráð fyrir að hátt í fimmtán hundruð farþegar eigi bókað far með þessum flugvélum.