Birta mynd­band af próf­unum á Boeing MAX

Þriggja daga flugprófunum á Boeing MAX þotum á vegum er lokið. Í takt við kröfur dagsins þá voru allir um borð með grímur.

Flugmenn og verkfræðingar FAA að störfum í Boeing MAX. SKJÁMYND: FAA

Nú hafa flug­stjórar vegum Flug­sam­göngu­stofn­unnar Banda­ríkj­anna (FAA) lokið fyrstu flug­próf­unum á Boeing MAX eftir að þoturnar voru kyrr­settar í mars í fyrra. Fyrsta flug­takið var á mánu­daginn í þessari viku og var þotunni svo lagt á ný í gær.

Á þessum þremur dögum lögðu flug­stjórar og verk­fræð­ingar FAA mat á þær breyt­ingar sem flug­véla­fram­leið­andinn hefur gert á sjálf­stýr­ingu þotanna samkvæmt því sem segir í frétt á vef stofn­un­ar­innar.

Þar segir jafn­framt að þetta sé merkur áfangi en ennþá eigi eftir að fara í gegnum fleiri hluta flug­vél­anna og vinna úr þeim gögnum sem aflað var í flug­ferðum vikunnar. Eins er ítrekað er að kyrr­setn­ingu þotanna verði fyrst aflétt þegar FAA hafi fengið full­nægj­andi sann­anir fyrir því að þoturnar standist allar þær kröfur sem gerðar eru.

Icelandair festi kaup á sextán Boeing MAX þotum og hafði aðeins fengið sex þeirra afhentar þegar flug­bannið var sett á í mars í fyrra eftir tvö mann­skæð flug­slys. Auk Icelandair þá nýttu Air Canada og Norwegian þotur af sömu gerð í flug til og frá Íslandi.

Hér að neðan má sjá stutt mynd­band frá flug­mála­yf­ir­völdum vest­an­hafs frá þessum flug­próf­unum. Eins og sjá má þá voru flug­stjórar og verk­fræð­ingar FAA allir með grímu í flug­stjórn­ar­klef­anum.