Birta myndband af prófunum á Boeing MAX

Þriggja daga flugprófunum á Boeing MAX þotum á vegum er lokið. Í takt við kröfur dagsins þá voru allir um borð með grímur.

Flugmenn og verkfræðingar FAA að störfum í Boeing MAX. SKJÁMYND: FAA

Nú hafa flugstjórar vegum Flugsamgöngustofnunnar Bandaríkjanna (FAA) lokið fyrstu flugprófunum á Boeing MAX eftir að þoturnar voru kyrrsettar í mars í fyrra. Fyrsta flugtakið var á mánudaginn í þessari viku og var þotunni svo lagt á ný í gær.

Á þessum þremur dögum lögðu flugstjórar og verkfræðingar FAA mat á þær breytingar sem flugvélaframleiðandinn hefur gert á sjálfstýringu þotanna samkvæmt því sem segir í frétt á vef stofnunarinnar.

Þar segir jafnframt að þetta sé merkur áfangi en ennþá eigi eftir að fara í gegnum fleiri hluta flugvélanna og vinna úr þeim gögnum sem aflað var í flugferðum vikunnar. Eins er ítrekað er að kyrrsetningu þotanna verði fyrst aflétt þegar FAA hafi fengið fullnægjandi sannanir fyrir því að þoturnar standist allar þær kröfur sem gerðar eru.

Icelandair festi kaup á sextán Boeing MAX þotum og hafði aðeins fengið sex þeirra afhentar þegar flugbannið var sett á í mars í fyrra eftir tvö mannskæð flugslys. Auk Icelandair þá nýttu Air Canada og Norwegian þotur af sömu gerð í flug til og frá Íslandi.

Hér að neðan má sjá stutt myndband frá flugmálayfirvöldum vestanhafs frá þessum flugprófunum. Eins og sjá má þá voru flugstjórar og verkfræðingar FAA allir með grímu í flugstjórnarklefanum.