Draga úr Evrópuflugi en halda Íslandi inni

Stjórnendur stærsta flugfélags í heimi hafa verið að stokka upp flugáætlun næsta sumars. Ennþá er áætlunarflug til Íslands á dagskrá.

MYND: AMERICAN AIRLINES

Ef Covid-19 hefði ekki sett heims­bú­skapinn úr skorðum þá hefðu þotur American Airlines flogið hingað daglega í sumar. Þó ekki frá Dallas í Texas eins og síðustu tvö sumur heldur frá Phila­delphia á aust­ur­strönd Banda­ríkj­anna.

Í þeirri borg hefur American Airlines verið að auka umsvif sín umtals­vert og er hún nú orðin helsta miðstöð Evrópuflugs félagsins. En vegna kórónu­veirukrepp­unnar hefur American Airlines, líkt og flest önnur flug­félög, þurft að skera niður flugáætlun sína.

Sá niður­skurður nær alveg fram á næsta ár því nú þegar hafa stjórn­endur American Airlines gefið út að framboð á lengri flug­leiðum, til að mynda til Evrópu, verði skorið niður um fjórðung árið 2021. Í þeim saman­burði er horft til þeirra áforma sem uppi voru fyrir yfir­stand­andi sumaráætlun.

Þessi breyting felur það meðal annars í sér að þotur American Airlines munu ekki snúa aftur til evrópsku borg­anna Búdapest, Berlínar og Dubrovnik næsta sumar. Aftur á móti er flug til Íslands ennþá á dagskrá. Það stað­festir blaða­full­trúi félagsins í svari til Túrista.

Kefla­vík­ur­flug­völlur verður þá einn þeirra sextán flug­valla í Evrópu sem American Airlines setur stefnuna á sumarið 2021. Þess má geta að Phila­delphia hefur verið hluti af sumaráætlun Icelandair síðustu ár en ferð­irnar þangað liggja nú niðri vegna ástandsins í heim­inum.