Draga úr Evrópuflugi en halda Íslandi inni

Stjórnendur stærsta flugfélags í heimi hafa verið að stokka upp flugáætlun næsta sumars. Ennþá er áætlunarflug til Íslands á dagskrá.

MYND: AMERICAN AIRLINES

Ef Covid-19 hefði ekki sett heimsbúskapinn úr skorðum þá hefðu þotur American Airlines flogið hingað daglega í sumar. Þó ekki frá Dallas í Texas eins og síðustu tvö sumur heldur frá Philadelphia á austurströnd Bandaríkjanna.

Í þeirri borg hefur American Airlines verið að auka umsvif sín umtalsvert og er hún nú orðin helsta miðstöð Evrópuflugs félagsins. En vegna kórónuveirukreppunnar hefur American Airlines, líkt og flest önnur flugfélög, þurft að skera niður flugáætlun sína.

Sá niðurskurður nær alveg fram á næsta ár því nú þegar hafa stjórnendur American Airlines gefið út að framboð á lengri flugleiðum, til að mynda til Evrópu, verði skorið niður um fjórðung árið 2021. Í þeim samanburði er horft til þeirra áforma sem uppi voru fyrir yfirstandandi sumaráætlun.

Þessi breyting felur það meðal annars í sér að þotur American Airlines munu ekki snúa aftur til evrópsku borganna Búdapest, Berlínar og Dubrovnik næsta sumar. Aftur á móti er flug til Íslands ennþá á dagskrá. Það staðfestir blaðafulltrúi félagsins í svari til Túrista.

Keflavíkurflugvöllur verður þá einn þeirra sextán flugvalla í Evrópu sem American Airlines setur stefnuna á sumarið 2021. Þess má geta að Philadelphia hefur verið hluti af sumaráætlun Icelandair síðustu ár en ferðirnar þangað liggja nú niðri vegna ástandsins í heiminum.