Eru í startholunum með sölu á Íslandsferðum frá Bretlandi

Clive Stacey hefur verið tíður gestur hér á landi í nærri hálfa öld og hefur í áratugi skipulagt ferðir Breta til Íslands.

clive turisti is
Clive Stacey, framkvæmdastjóri og eigandi Discover the World.

Clive Stacey, eigandi ferðaskrifstofunnar Discover the World, var einn þeirra sem hélt til Íslands þegar þegar krafan um sóttkví hér á landi var felld niður þann 15. júní. En Stacey hefur í áratugi verið umsvifamikill í skipulagningu á Íslandsferðum fyrir Breta.

„Ástæðan fyrir ferðalagi mínu um Ísland núna í júní var afla efnis sem nýta má á samfélagsmiðlum. Einnig vildi ég sjá með eigin augum hvernig staðan er til að geta gefið viðskiptavinum okkar góðar ráðleggingar,“ segir Stacey.

Aðspurður um stöðuna hér á landi í dag segir hann að hún minni um margt á það þegar hann kom hingað í fyrsta sinn árið 1972. Þó vissulega sé aðbúnaðurinn við ferðamannastaði miklu betri í dag.

„Mín tilfinning er sú að stemningin á Íslandi sé orðin mun hefðbundnari en til að mynda í Bretlandi þar sem miklar takmarkanir ríkja ennþá,“ bætir Stacey við. Hann segist reyndar fúslega viðurkenna að hann hafi aldrei áður notið þess eins vel að fara hringveginn og hann gerði að þessu sinni.

„Veðrið var sérstaklega gott og að sjálfsögðu voru fáir á ferðinni,“ segir Stacey og segir það einnig hafa verið ánægjulegt hversu margir Íslendingar voru á ferðinni út á landi.

Stacey gerir sér vonir um að fljótlega geti ferðamenn farið á milli Íslands og Bretlands án mikilla vandkvæða. Í dag gera bresk stjórnvöld þó ennþá kröfu um að allir sem til Bretlands koma fari í tveggja vikna sóttkví. Líka Bretar sjálfir sem hafa verið erlendis.

Tilslakanir á þeirri reglu eru þó væntanlegar á næstu dögum og þá ætlar Stacey og hans fólk hjá Discover the World að vera tilbúið.

Áhuginn viðskiptavina hans er líka töluverður því samkvæmt nýjustu mælingu þá sýna 14 prósent þeirra áhuga á Íslandsferð strax nú í sumar. Byggir sú niðurstaða á spurningum til 27 þúsund viðskiptavina Discover the World.