Eru í start­hol­unum með sölu á Íslands­ferðum frá Bretlandi

Clive Stacey hefur verið tíður gestur hér á landi í nærri hálfa öld og hefur í áratugi skipulagt ferðir Breta til Íslands.

clive turisti is
Clive Stacey, framkvæmdastjóri og eigandi Discover the World.

Clive Stacey, eigandi ferða­skrif­stof­unnar Discover the World, var einn þeirra sem hélt til Íslands þegar þegar krafan um sóttkví hér á landi var felld niður þann 15. júní. En Stacey hefur í áratugi verið umsvifa­mikill í skipu­lagn­ingu á Íslands­ferðum fyrir Breta.

„Ástæðan fyrir ferða­lagi mínu um Ísland núna í júní var afla efnis sem nýta má á samfé­lags­miðlum. Einnig vildi ég sjá með eigin augum hvernig staðan er til að geta gefið viðskipta­vinum okkar góðar ráðlegg­ingar,” segir Stacey.

Aðspurður um stöðuna hér á landi í dag segir hann að hún minni um margt á það þegar hann kom hingað í fyrsta sinn árið 1972. Þó vissu­lega sé aðbún­að­urinn við ferða­mannastaði miklu betri í dag.

„Mín tilfinning er sú að stemn­ingin á Íslandi sé orðin mun hefð­bundnari en til að mynda í Bretlandi þar sem miklar takmark­anir ríkja ennþá,” bætir Stacey við. Hann segist reyndar fúslega viður­kenna að hann hafi aldrei áður notið þess eins vel að fara hring­veginn og hann gerði að þessu sinni.

„Veðrið var sérstak­lega gott og að sjálf­sögðu voru fáir á ferð­inni,” segir Stacey og segir það einnig hafa verið ánægju­legt hversu margir Íslend­ingar voru á ferð­inni út á landi.

Stacey gerir sér vonir um að fljót­lega geti ferða­menn farið á milli Íslands og Bret­lands án mikilla vand­kvæða. Í dag gera bresk stjórn­völd þó ennþá kröfu um að allir sem til Bret­lands koma fari í tveggja vikna sóttkví. Líka Bretar sjálfir sem hafa verið erlendis.

Tilslak­anir á þeirri reglu eru þó vænt­an­legar á næstu dögum og þá ætlar Stacey og hans fólk hjá Discover the World að vera tilbúið.

Áhuginn viðskipta­vina hans er líka tölu­verður því samkvæmt nýjustu mælingu þá sýna 14 prósent þeirra áhuga á Íslands­ferð strax nú í sumar. Byggir sú niður­staða á spurn­ingum til 27 þúsund viðskipta­vina Discover the World.