Færri ferða­menn vegna breyt­inga á flugáætlun með litlum fyrir­vara

Icelandair kynnti mjög umsvifamikla flugáætlun um miðjan síðasta mánuð. Nú hefur félagið aftur á móti þurft að fella niður stóran hluta og í sumum tilfellum er það gert með stuttum fyrirvara sem kemur illa niður á ferðaskrifstofum hér á landi.

Til stóð að Icelandair myndi fjölga ferðum héðan mjög ört eftir að ferðatakmarkanir voru felldar úr gildi víða í Evrópu. Þau áform hafa þó ekki gengið eftir. MYND: ISAVIA

Landa­mæri fjölda Evrópu­ríkja opnuðust þann 15. júní og þá var fallið frá kröf­unni um að allir ferða­menn, sem hingað koma, fari í tveggja vikna sóttkví. Í tengslum við þessar breyt­ingar kynnti Icelandair flugáætlun sem náði til 19. júlí.

Sú áætlun hefur nú verið skorin veru­lega niður. Til marks um það þá var upphaf­lega gert ráð fyrir 74 brott­förum á vegum Icelandair í þessari viku en nú stefnir í að þrjátíu þeirra falli niður. Í næstu og þarnæstu viku nemur niður­skurð­urinn ríflega fimmtíu ferðum eða um rúmlega helm­ingi fram­boðsins.

Munar þar mestu um að nærri allt flug til Banda­ríkj­anna var fellt niður vegna áfram­hald­andi ferða­tak­markana þaðan. Hátt í helm­ingi ferða til Evrópu í næstu og þarnæstu viku hefur sömu­leiðis verið aflýst.

„Þessar flug­breyt­ingar hafa komið illa við okkur og hafa dregið úr veru­lega úr komu gesta sem áttu bókaðar alferðir til Íslands,” segir Pétur Óskarsson, fram­kvæmda­stjóri Viator og einn af eigendum Katla-Travel, sem sérhæfir sig í skipu­lagn­ingu Íslands­ferða frá þýsku­mæl­andi löndum.

Pétur nefnir sem dæmi að hópa­ferðir hafi fallið niður vegna þess að brott­förum hluta hópsins hafi verið aflýst og þar með er ekki lengur grund­völlur fyrir ferða­lagi allra hinna.

„Á hverjum degi fáum við svo afbók­anir frá einstak­lingum sem áttu að koma á allra næstu dögum en nú hafa flugin verið felld niður. Oft hefur þetta fólk þegar breytt ferða­plönum sínum einu sinni eða tvisvar áður en missir svo flugið sitt á síðustu stundu,” bætir Pétur við.

Hann segir svekkj­andi að horfa á bókanir hrynja út vegna þessara breyt­inga á flugáætlun stuttu fyrir brottför.

Í viðtali við RÚV í vikunni sagði Birna Ósk Einars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjá Icelandair, að þar á bæ hafi verið ákveðið að bjóða strax upp á mikið framboð flug­ferða til að geta farið hratt af stað eftir að slakað var á ferða­tak­mörk­unum. Aftur á móti hafi þurft að fella niður mikið af áætl­un­inni þar sem ennþá er óvíst um hvenær Banda­ríkja­menn mega ferðast hingað til lands. Flug­framboð Icelandair til Evrópu byggir nefni­lega að hluta til á tengifar­þegum á leið til Norður-Ameríku.