Færri ferðamenn vegna breytinga á flugáætlun með litlum fyrirvara

Icelandair kynnti mjög umsvifamikla flugáætlun um miðjan síðasta mánuð. Nú hefur félagið aftur á móti þurft að fella niður stóran hluta og í sumum tilfellum er það gert með stuttum fyrirvara sem kemur illa niður á ferðaskrifstofum hér á landi.

Til stóð að Icelandair myndi fjölga ferðum héðan mjög ört eftir að ferðatakmarkanir voru felldar úr gildi víða í Evrópu. Þau áform hafa þó ekki gengið eftir. MYND: ISAVIA

Landamæri fjölda Evrópuríkja opnuðust þann 15. júní og þá var fallið frá kröfunni um að allir ferðamenn, sem hingað koma, fari í tveggja vikna sóttkví. Í tengslum við þessar breytingar kynnti Icelandair flugáætlun sem náði til 19. júlí.

Sú áætlun hefur nú verið skorin verulega niður. Til marks um það þá var upphaflega gert ráð fyrir 74 brottförum á vegum Icelandair í þessari viku en nú stefnir í að þrjátíu þeirra falli niður. Í næstu og þarnæstu viku nemur niðurskurðurinn ríflega fimmtíu ferðum eða um rúmlega helmingi framboðsins.

Munar þar mestu um að nærri allt flug til Bandaríkjanna var fellt niður vegna áframhaldandi ferðatakmarkana þaðan. Hátt í helmingi ferða til Evrópu í næstu og þarnæstu viku hefur sömuleiðis verið aflýst.

„Þessar flugbreytingar hafa komið illa við okkur og hafa dregið úr verulega úr komu gesta sem áttu bókaðar alferðir til Íslands,“ segir Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator og einn af eigendum Katla-Travel, sem sérhæfir sig í skipulagningu Íslandsferða frá þýskumælandi löndum.

Pétur nefnir sem dæmi að hópaferðir hafi fallið niður vegna þess að brottförum hluta hópsins hafi verið aflýst og þar með er ekki lengur grundvöllur fyrir ferðalagi allra hinna.

„Á hverjum degi fáum við svo afbókanir frá einstaklingum sem áttu að koma á allra næstu dögum en nú hafa flugin verið felld niður. Oft hefur þetta fólk þegar breytt ferðaplönum sínum einu sinni eða tvisvar áður en missir svo flugið sitt á síðustu stundu,“ bætir Pétur við.

Hann segir svekkjandi að horfa á bókanir hrynja út vegna þessara breytinga á flugáætlun stuttu fyrir brottför.

Í viðtali við RÚV í vikunni sagði Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Icelandair, að þar á bæ hafi verið ákveðið að bjóða strax upp á mikið framboð flugferða til að geta farið hratt af stað eftir að slakað var á ferðatakmörkunum. Aftur á móti hafi þurft að fella niður mikið af áætluninni þar sem ennþá er óvíst um hvenær Bandaríkjamenn mega ferðast hingað til lands. Flugframboð Icelandair til Evrópu byggir nefnilega að hluta til á tengifarþegum á leið til Norður-Ameríku.