Fáir í þotunum sem flugu milli Íslands og London

London var ein þeirra þriggja borga sem flogið var reglulega til frá Keflavíkurflugvelli í vor. Sætanýtingin í þessum ferðum var þó mjög lág.

Frá Heathrow flugvelli í London. MYND: LONDON HEATHROW

Skimun flugfarþega á Keflavíkurflugvelli hófst þann 15. júní og þennan sama dag opnaði líka fjöldi Evrópuríkja landamæri sín. Vikurnar á undan höfðu flugsamgöngur milli landa verið mjög tamarkaðar vegna ástandsins sem Covid-19 heimsfaraldurinn hefur valdið.

Af þeim sökum styrkti íslenska ríkið áætlunarflug Icelandair nú í vor sem gerði félaginu kleift að halda úti ferðum til London, Stokkhólms og Boston. Og ekki var vanþörf á því fáir voru á ferðinni á þessum tíma.

Í apríl flugu aðeins 912 farþegar milli Íslands og London og í maí fór fjöldinn svo upp í 1214 farþega samkvæmt nýjum tölum frá breskum flugmálayfirvöldum. En þess ber að geta að farþegar eru taldir bæði þegar þeir fljúga frá London og líka þegar þeir lenda þar.

Samkvæmt talningu Túrista þá voru farnar 24 ferðir milli Íslands og London í maí og allar á vegum Icelandair. Þar með hefur að jafnaði 51 farþegi setið í hverri þotu sem flaug milli Íslands og London í maí. Meðaltalið í apríl var nokkru lægra eða 29 farþegar í hverri ferð.

Bróðurpartur flugflota Icelandair eru Boeing 757 þotur með 183 sæti. Sætanýtingin hefur því verið mjög lág í þessum ferðum til og frá bresku höfuðborginni.

Það átti reyndar líka við annað farþegaflug Icelandair í maí. Þannig kom fram í farþegatölum félagsins að rétt 29,1 prósent sæta í ferðum félagsins í maí hafi verið skipuð farþegum.