Fjölgun flugferða í ágúst reynir aftur á þakið í smitprófunum

Þýskalandi, Danmörku, Noregi og Finnlandi hefur nú verið bætt við lista sóttvarnarlæknis yfir örugg lönd. Þar með reynir ekki á takmarkaða afkastagetu við skimun komufarþega næstu tvær vikur en frá og með mánaðamótum kemur vandinn upp á ný.

Mynd: Isavia

Hingað til hafa aðeins Grænlendingar og Færeyingar sloppið við skimun vegna Covid-19 við komuna til Íslands. Sóttvarnarlæknir gaf svo út í gær að frá og með fimmtudegi sleppa einnig þeir sem koma frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Þýskalandi. Í máli sóttvarnalæknis kom fram að vegna aukinnar aðsóknar ferðamanna hafi þurft að fjölga þeim löndum sem ekki þarf að skima frá.

Það stefndi nefnilega í að fella þyrfti niður fjölda flugferða hingað til lands næstu daga og þar með hefðu ferðaplön þúsunda farþega verið í óvissu. Á sama tíma var óljóst hver bæri í raun ábyrgð á þessum farþegum eða hvernig forgangsraða ætti flugumferðinni líkt og samræmingarstjórinn fyrir íslenska flugvelli, Frank Holton, benti á í vikubyrjun.

Holton segir, í samtali við Túrista, að það hafi verið jákvæð tíðindi að reglum um smitpróf hafi verið breytt í gær. Staðan sem komin var upp hafi nefnilega verið krítísk og tímapressan mikil enda hefði strax á morgun þurft að aflýsa nokkrum ferðum og svo nánast hvern dag þar á eftir. Sú staða mun þó að öllum líkum koma upp fljótlega á ný segir Holton.

„Ég sé á gögnum okkar að vandinn sem við stóðum frammi fyrir hefur nú verið leystur út júlí. Frá og með fyrsta ágúst fjölgar flugferðum á ný og þar með farþegum.“ Í því samhengi bendir samræmingarstjórinn á að í júlí verði fjöldi flugferða hingað til lands tvöfalt meiri en júní og útlit sé fyrir að ágúst verði tvöfaldur á við júlí.

„Við gerum þó ráð fyrir einhverjum breytingum á dagskránni næstu tvær vikur en það er erfitt að segja fyrir hversu miklu verður aflýst.“ Engu að síður telur Holton það ljóst vera, út frá áformuðum flugferðum hingað í ágúst, að endurskoða þurfi á ný til þær reglur sem gilda varðandi skimun til að koma í veg fyrir niðurfellingar á flugferðum síðar í sumar.

Holton ítrekar þó að óvissan í fluggeiranum er mikil um þessar mundir og kórónaveirukreppan hafi kennt okkur að hlutirnir geti breyst hratt.

Þess má geta að Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á fundi almannavarna í gær að næst gætu Eystrarsaltslöndin fengið undanþágu frá skimum og hugsanlega Frakkland og Spánn líka.