Flug­freyjur og flug­þjónar felldu nýjan kjara­samning

Forstjóri Icelandair Group segir að nú verði að skoða aðra möguleika í stöðunni.

Mynd: Berlin Airport

Félags­menn Flug­freyju­fé­lags Íslands hafa fellt nýjan kjara­samning við Icelandair sem skrifað var undir hjá Ríkis­sátta­semjara þann 25. júní. Í tilkynn­ingu frá Icelandair Group segir að nú verði metið hvaða mögu­leikar eru í stöð­unni.

„Við höfum lagt allt kapp á að ná samn­ingum við Flug­freyju­félag Íslands undan­farnar vikur og mánuði. Með þessum samn­ingi gengum við eins langt og mögu­legt var til að koma til móts við samn­inga­nefnd FFÍ. Þessi samn­ingur hefði tryggt ein bestu kjör fyrir störf flug­freyja og flug­þjóna sem þekkjast á alþjóða­markaði en á sama tíma aukið samkeppn­is­hæfni félagsins til fram­tíðar. Þetta eru því mikil vonbrigði. Nú verðum við að skoða þá mögu­leika sem eru í stöð­unni og munum gera það hratt og örugg­lega. Það hvílir mikil ábyrgð á okkur sem stjórna félaginu að tryggja rekstr­ar­grund­völl þess til fram­tíðar og þar með verð­mæti fyrir þjóð­ar­búið og mikilvæg störf, þar á meðal störf flug­freyja og flug­þjóna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynn­ingu.  

Í fréttum RÚV kom fram að 72,65 prósent félaga í Flug­freyju­fé­lagi Íslands hafi greitt atkvæði gegn samn­ingnum en 26,46 greiddu atkvæði með honum. 0,89 prósent skiluðu auðu.