Forgangur flugmanna byggir á öðrum grunni en réttur flugfreyja og flugþjóna

Félagar í Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ) felldu með miklum meirihluta kjarasamning við Icelandair. Að mati formanns Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gekk samningurinn mun skemur í hagræðingarátt en sá sem flugmenn samþykktu í sumarbyrjun.

MYND: ICELANDAIR

„Það eru vissulega vonbrigði að nýundirritaður kjarasamningur Icelandair og FFÍ skuli hafa verið felldur. Það var og er von FÍA að deilan leysist við samningaborðið eins lög gera ráð fyrir. Staðan er snúin þar sem nýfelldur kjarasamningur FFÍ gekk að mati FÍA mun skemur í hagræðingarátt en flugmenn hafa samið um við Icelandair,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í skriflegu svari til Túrista.

Í tilkynningu sem Icelandair Group sendi frá sér í gær ítrekaði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, að fyrirtækið gæti ekki teygt sig lengra í viðræðum við FFÍ.

Deilan er því í hnút en líkt og endurtekið hefur komið fram í máli forsvarsfólks Icelandair er nýr langtímasamningur við flugstéttir í forgangi fyrir boðað hlutafjárútboð sem er núna á dagskrá í næsta mánuði. Stéttarfélög flugmanna og flugvirkja samþykktu tilboð flugfélagsins í sumarbyrjun.

Líkurnar á að deilan við flugfreyjur fari fyrir Félagsdóm munu því hafa aukist. Verði sú leið farin gæti Icelandair einnig látið reyna á ákvæði um forgang félagsmanna FFÍ á störf hjá flugfélaginu. Flugmenn hafa einnig þann rétt.

Aðspurður hvernig þess háttar dómsmál leggist í stjórn FÍA, sérstaklega mögulegt fordæmisgildi dómsins, þá segir Jón Þór óvarlegt að tjá sig um hugsanlega niðurstöðu og áhrif slíks.

„Hitt er ljóst að forgangsréttarákvæði flugmanna FÍA er byggt á starfsaldurslista sem lögfestur er af Alþingi og starfsaldursreglum sem eru hluti af kjarasamningi flugmanna. Starfsaldurslisti flugmanna er í grunninn flugöryggismál. Forgangsákvæði FFÍ er ekki byggt á slíkum grunni,“ bætir Jón Þór við.