Full hótel út á landi en bara eitt opið í Reykjavík

Hann er í raun tvískiptur hótelmarkaðurinn hér á landi þessar vikurnar. Að sögn framvæmdastjóra stærstu hótelkeðju landsins er meðalverð á gistingu líka mun lægra en áður.

Frá Fosshótel Reykjavík. Mynd: ÍSLANDSHÓTEL

Síðastliðnar sumarvertíðir hafa hótel á höfuðborgarsvæðinu staðið undir nærri helmingi af umsvifunum á íslenska hótelmarkaðnum þegar horft er til fjölda gistinátta. Sumarið í ár er þó allt annað en hefðbundið vegna Covid-19 og mörg hótel í Reykjavík og nágrenni lokuð.

Þannig er aðeins eitt af sex hótelum Íslandshótela í Reykjavík opið. Og þrátt fyrir miklu minna framboð þá er herbergjanýtingin rétt um helmingur af því sem var síðastliðið sumar að sögn Davíð Torfa Ólafssonar, framkvæmdastjóra Íslandshótela.

Hann segir stöðuna á landsbyggðinni allt aðra. Þar eru átta af ellefu hótelum fyrirtækisins opin og nánast öll herbergi full. Í ágúst verður fjöldi opinna hótela óbreyttur en útlit fyrir nokkru lægri herbergjanýtingu eða um sextíu prósent.

Davíð Torfi segir aðspurður að meðalverð á gistingu nú í sumar sé mun lægra en áður.