Gagnrýna nýjar reglur um sóttkví eftir Spánarreisu

Nú þurfa Norðmenn og Bretar að fara í allt að tveggja vikna sóttkví eftir að hafa heimsótt Spán. Yfirvöld þar í landi lýsa furðu yfir þessum nýju kröfum og benda á kórónaveiran sé ennþá lítið útbreitt á Kanaríeyjum.

MYND: FERÐAMÁLARÁÐ KANARÍEYJA

Spánn er nú flokkað sem rautt svæði hjá norskum heilbrigðisyfirvöldum samkvæmt tilkynningu sem send var út í lok nýliðinnar vinnuviku. Þar með þurfa allir íbúar Noregs að fara í tíu daga sóttkví við komuna heim eftir Spánardvöl. Ástæðan er fjölgun nýrra Covid-19 tilfella á Spáni síðustu vikur.

Bresk stjórnvöld ákváðu svo nú um helgina að fylgja þessu fordæmi Norðmanna. Það þýðir að breskir Spánarfarar eiga að fara í tveggja vikna sóttkví þegar þeir snúa heim á ný. Bretar eru almennt fjölmennir í hópi ferðamanna á Spáni og í fyrra lét nærri að fimmti hver túristi í landinu væri breskur.

Spænskir ráðamenn hafa gagnrýnt ákvörðun breska starfsbræðra sinna og bent á að fjölgun Covid-19 smita í landinu megi að mestu rekja til Katalóníu og héraða í norðurhluta Spánar. Á Kanaríeyjum sé staðan til að mynda allt önnur og því óþarfi að skylda ferðamenn sem þaðan koma til að fara í sóttkví.

Eins og Túristi hefur áður fjallað um þá er nú boðið upp á vikulegar brottfarir héðan til bæði Tenerife og Alicante.