Góður stígandi hjá Norrænu

Þeim hefur fjölgað umtalsvert síðustu vikur sem koma hingað sjóleiðina með Norrænu. Ennþá er fjöldinn þó nokkuð undir því sem var áður en heimsfaraldurinn braust út.

Það komu 750 farþegar með Norrænu til Seyðisfjarðar í gær. Von er á álíka fjölda næstu vikur miðað við bókunarstöðuna í dag. MYND: SMYRIL LINE

Það voru rétt um hundrað og fimmtíu farþegar í fyrstu ferð Norrænu hingað til lands þann sextánda júní. Deginum eftir að slakað var á kröfunni um tveggja vikna sóttkví fyrir alla þá sem til landsins komu. Viku síðar silgdi Norræna hingað með 460 farþega.

Nú í júlí hefur farþegafjöldinn aukist umtalsvert og þannig komu 750 farþegar með skipinu í gær. Og von er á álíka fjölda næstu þrjár vikur samkvæmt upplýsingum frá Smyril line sem rekur Norrænu.

Þar með stefnir í að Norræna flytji hingað til lands hátt í þrjú þúsund farþega í þessum mánuði.

Síðustu sumur hafa á bilinu 900 til 1100 manns nýtt sér hverja ferð Norrænu hingað til lands.