Hægari bati á reykvískum hótelmarkaði

Þegar horft er til nýtingar á hótelherbergjum þá er hún lægri í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna og líka þegar horft er til Eystrarsaltslandanna.

MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Þó þeim fjölgi vissulega gestunum á hótelum í Reykjavík þá hlutfall bókaðra herbergja nokkru lægra en í löndunum í kringum okkur. Í lok þarsíðustu viku var herbergjanýtingin í höfuðborginni rétt um fimmtán prósent á meðan hlutfallið var fjörutíu prósent í Riga og Tallinn. Þetta sýnir samantekt Benchmark Alliance.

Í Ósló var hlutfall bókaðra herbergja tæp þrjátíu prósent og rétt um fjórðungur í Helsinki og Kaupmannahöfn. Í Vilnius og Stokkhólmi tæp tuttugu prósent en lægst var hún í Reykjavík, sem fyrr segir, eða um fimmtán prósent

Ekki kemur fram í samantekt Benchmark Alliance hverjar skýringarnar kunni að vera á mishröðum bata í borgunum átta nú þegar ferðalög eru að aukast á ný. Það má þó gera ráð fyrir að fámennur heimamarkaður standi hótelum í Reykjavík fyrir þrifum.