Hefja Ameríkuflug í árslok

Norwegian eykur umsvif sín þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að liggja nærri í dvala út næsta vetur.

MYND: NORWEGIAN

Segja má að kröfuhafar og flugvélaeigendur hafi tekið yfir norska flugfélagið Norwegian nú í vor í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Á sama tíma kynntu stjórnendur flugfélagsins áform um að draga verulega úr framboði á flugi nú í sumar og líka næsta vetur.

Síðan þá hefur félagið þó tekið upp þráðinn hér og þar og til að mynda fljúga þotur félagsins hingað frá Ósló þessa dagana. Og ennþá er hægt að bóka flug með félaginu frá Íslandi til Alicante og Barcelona allan næsta vetur

Rekstur Norwegian hefur lengi verið í járnum og þar vegur þungt Ameríkuflug félagsins sem hefur reynst kostnaðarsamt. Stjórnendur og nýir eigendur félagsins láta þó ekki deigan síga og hafa boðað áætlunarflug frá London og París vestur um haf frá og með desember.

Icelandair er einmitt með tíðar ferðir frá báðum þessum stórborgum og flýgur þá jafnan þaðan með fjölda fólks sem skiptir um flugvél á Keflavíkurflugvelli og heldur svo förinni áfram vestur um haf. Norwegian heldur því áfram að veita Icelandair harða samkeppni á þessum markaði.