Hlutur eigenda Kynnisferða verður hærri

Upphaflega var gert ráð fyrir að hluthafar í fjárfestingasjóðnum Eldey yrðu í meirihluta við sameininguna við Kynnisferðir.

Kynnisferðir reka meðal annars Flugrútuna sem sinnir áætlunarferðum frá BSÍ til Keflavíkurflugvallar. Mynd: Kynnisferðir

Áreiðanleikakönnun vegna sameiningar Kynnisferða og Eldeyjar er lokið og nú er unnið að gerð kaupsamnings sem vonast er til að verði undirritaður á næstu vikum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu.

Samkeppniseftirlitið gaf grænt ljós á viðræður milli aðila í vor en Kynnisferðir eru stærsta hópferðafyrirtæki landsins. Eldey er aftur á móti fjárfestingasjóður sem á mismunandi stóra hluti í ferðaþjónustufyrirtækjum sem sérhæfa sig í afþreyingu fyrir ferðafólk.

Upphaflega stóð til að Eldey fengi um 51 prósent hlut í sameinuðu fyrirtæki en nú er niðurstaðan sú að hluturinn verður 35 prósent. Eigendur Kynnisferða fá þá 65 prósent. Þessi breyting skrifast meðal annars á að hlutur Eldeyjar í Norðursiglingu verður ekki hluti af samrunanum.

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá munu hluthafar Eldeyjar leggja félaginu til um hálfan milljarð króna við sameininguna. Hluthafar Kynnisferða bæta svo 300 milljónum króna til viðbótar.

Samkvæmt kynningu sem hluthöfum Eldeyjar var kynnt í byrjun maí þá var aftur á móti stefnt á rúmlega tveggja milljarða króna hlutafjáraukningu í sjóðnum einum og sér.

Það eru nokkrir lífeyrissjóðir sem fara sameiginlega með um áttatíu prósent hlut í Eldey. Tap fjárfestingasjóðsins nam um 1,4 milljörðum síðustu tvö ár sem skrifast að mestu á niðurfærslu eigna vegna Covid-19.