Í besta falli helmingi lægri farþegatekjur

Útlitið í fluggeiranum er áfram mjög dökkt að mati stjórnenda eins stærsta flugfélags heims.

Þota United Airlines á Keflavíkurflugvelli. Mynd: United Airlines

Þangað til hægt verður að bólusetja heimsbyggðina fyrir Covid-19 þá búast stjórnendur United Airlines við því að tekjur félagsins verði í mesta lagi helmingur af því sem var árið 2019. Þetta kom fram í máli framkvæmdastjóra bandaríska félagsins á fundi með fjárfestum í fyrradag.

Ennþá á félagið töluvert í að ná þessu helmings hlutfalli og stjórnendur þess hafa ekki sagt hvenær þeir telja að tekjurnar verði þetta miklar samkvæmt frétt Bloomberg.

Á öðrum ársfjórðungi þessa árs þá nam svokallaður fjármagnsbruni hjá United Airlines að jafnaði um 40 milljónum dollara á dag. Það jafngildir um 5,6 milljörðum króna. Á yfirstandandi fjórðungi er gert ráð fyrir að upphæðin fari niður í 25 milljónir dollara á sólarhring eða niður í þrjá og hálfan milljarð króna.

Ef afkomubatinn hjá Icelandair yrði álíka þá myndi það þýða að daglegt rekstrartap félagsins fari úr 170 milljónum króna, frá öðrum ársfjórðungi, niður í rétt rúmar eitt hundrað milljónir króna á yfirstandandi fjórðungi. Eins og gefur að skilja er efnahagur og rekstur United Airlines og Icelandair gjörólíkur.

Félögin tvö eiga það þó sameiginlegt að bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management hefur veðjað á þau bæði. Þannig gerðu stjórnendur sjóðsins tilraun til hallarbyltingar innan United líkt og Túristi hefur fjallað um.