Icelandair eykur farþega­flug um nærri þriðjung í lok ágúst

Flugáætlun Icelandair í þessari viku gerir ráð fyrir að jafnaði tíu brottförum á dag. Upp úr miðjum næsta mánuði er gert ráð fyrir nokkru meiri umsvifum.

Mynd: Isavia

Vegna aukinnar aðsóknar ferða­manna var listinn yfir þær þjóðir sem ekki þurfa í skimun á Kefla­vík­ur­flug­velli lengdur fyrir tveimur vikum síðan. Þá bættust Þjóð­verjar, Danir, Norð­menn og Finnar við listann en áður höfðu aðeins Græn­lend­ingar og Færey­ingar verið á honum.

Með þessum breyt­ingum reyndir ekki á afkasta­getuna við skimun á Kefla­vík­ur­flug­velli en hún miðast við að hámarki tvö þúsund sýni á dag.

Nú ríkir aftur á móti óvissa um hvort þessi listi yfir svokall­aðar öruggar þjóðir verði styttur á ný. Ef það gerist má gera ráð fyrir að aftur reyni á þetta þak í smit­próf­unum líkt og Túristi hefur áður fjallað um.

Flug­um­ferðin til landsins er nefni­lega að aukast og sérstak­lega seinni hlutann í ágúst. Til marks um það þá gerir Icelandair ráð fyrir allt að 97 ferðum í viku í lok ágúst en í þessari viku eru ferð­irnar sjötíu talsins. Hlut­falls­lega nemur aukn­ingin 31 prósenti.

Áætlun Icelandair næstu tvær vikur gerir aftur á móti ráð fyrir álíka mörgum ferðum og nú eins og sjá má á töfl­unni hér fyrir neðan.