Icelandair gaf út inneignarnótur fyrir 9,1 milljarð króna

Icelandair er ekki eina flugfélagið sem hefur nú í heimsfaraldrinum skuldbundið sig til að fljúga fólki milli landa næstu ár án þess að fá inn nýjar tekjur. Kostnaðurinn við að koma þessum farþegum á áfangastað hverfur þó ekki.

MYND: ICELANDAIR

Allt frá því að flugsamgöngur stöðvuðust vegna Covid-19 heimsfaraldursins þá hefur flugfélögum borið skylda til að endurgreiða þær ferðir sem fallið hafa niður. Fyrir flest flugfélög var þó óraunhæft að verða við þessari kröfu því þá hefðu fjárhirslurnar tæmst hratt í vor.

Af þeim sökum lögðu stjórnendur flugfélaga áherslu á að fá hluta farþega til að þiggja inneignarnótur í stað þess að fá endurgreitt. Icelandair var þar engin undantekning og samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins þá gaf félagið út inneignarbréf fyrir 67,2 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins. Það jafngildir um 9,1 milljarði króna.

Til að setja þessa upphæð í samhengi þá nemur hún um fjórðungi af öllum farþegatekjum Icelandair á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Og þessi skuldbinding flugfélagsins gagnvart farþegunum er ögn hærri en krafa CIT bankans á Icelandair en þessi bandaríski banki er einn helsti kröfuhafi félagsins.

Icelandair er þó aldeilis ekki eina flugfélagið sem næstu ár þarf að fljúga með fjölda farþega út á inneignir. Í nýrri samantekt IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, er til að mynda fjallað um þessa nýju áskorun í flugrekstri. Þar er bent á að flugfélög muni skiljanlega bera allan kostnað af því að koma þessum farþegum á milli staða en á sama tíma komi ekki inn neinar viðbótar tekjur.