Icelandair gaf út inneign­arnótur fyrir 9,1 milljarð króna

Icelandair er ekki eina flugfélagið sem hefur nú í heimsfaraldrinum skuldbundið sig til að fljúga fólki milli landa næstu ár án þess að fá inn nýjar tekjur. Kostnaðurinn við að koma þessum farþegum á áfangastað hverfur þó ekki.

MYND: ICELANDAIR

Allt frá því að flug­sam­göngur stöðv­uðust vegna Covid-19 heims­far­ald­ursins þá hefur flug­fé­lögum borið skylda til að endur­greiða þær ferðir sem fallið hafa niður. Fyrir flest flug­félög var þó óraun­hæft að verða við þessari kröfu því þá hefðu fjár­hirsl­urnar tæmst hratt í vor.

Af þeim sökum lögðu stjórn­endur flug­fé­laga áherslu á að fá hluta farþega til að þiggja inneign­arnótur í stað þess að fá endur­greitt. Icelandair var þar engin undan­tekning og samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins þá gaf félagið út inneign­ar­bréf fyrir 67,2 millj­ónir dollara á fyrri helm­ingi ársins. Það jafn­gildir um 9,1 millj­arði króna.

Til að setja þessa upphæð í samhengi þá nemur hún um fjórð­ungi af öllum farþega­tekjum Icelandair á öðrum ársfjórð­ungi í fyrra. Og þessi skuld­binding flug­fé­lagsins gagn­vart farþeg­unum er ögn hærri en krafa CIT bankans á Icelandair en þessi banda­ríski banki er einn helsti kröfu­hafi félagsins.

Icelandair er þó aldeilis ekki eina flug­fé­lagið sem næstu ár þarf að fljúga með fjölda farþega út á inneignir. Í nýrri saman­tekt IATA, alþjóða­sam­taka flug­fé­laga, er til að mynda fjallað um þessa nýju áskorun í flugrekstri. Þar er bent á að flug­félög muni skilj­an­lega bera allan kostnað af því að koma þessum farþegum á milli staða en á sama tíma komi ekki inn neinar viðbótar tekjur.