Íslensk stjórnvöld hafa ekki ennþá samþykkt aukið ferðafrelsi

Það er rúm vika liðin frá því að ákveðið var að heimila þjóðum utan Schengen að heimsækja Evrópu. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þessi samþykkt hefur hér á landi.

Íbúar Ástralíu, Kanada, Japan, Suður-Kóreu, Nýja-Sjálands og Taílands mega nú heimsækja Danmörku.

Ráðamenn aðildarríkja Evrópusambandsins samþykktu um síðustu mánaðamót afnám ferðatakmarkana inn á Schengen-svæðið gagnvart íbúum fimmtán ríkja. Ennþá hafa íslensk stjórnvöld þó ekki gefið út nýja reglugerð sem byggir á þessari samþykkt. Þar með er Ísland ennþá lokað fyrir ferðafólki sem býr utan við Schengen svæðið.

Á þessum fyrrnefnda lista ESB eru þjóðir sem hafa verið fjölmennar í hópi ferðamanna á Íslandi í gegnum tíðina. Til að mynda Japanir, Ástralir og Kanadamenn. Kínverjar fengu líka grænt ljós en þó með fyrirvara um að það sama gilti þá um Evrópubúa sem vildu heimsækja þá.

Ísland er þó ekki eina Evrópuríkið sem hefur dregið lappirnar í að innleiða samþykkt ESB. Það hafa hvorki stjórnvöld í Belgíu né Írlandi gert. Og nokkur Evrópuríki hafa aðeins fellt niður ferðatakmarkanir gagnvart völdum þjóðum af listanum. Þannig völdu Danir úr sex þjóðir og Þjóðverjar átta.

Þetta misræmi í innleiðingu nýju reglnanna gagnrýnir forsvarsfólk Airlines4Europe, hagsmunasamtaka evrópskra flugfélag. Í tilkynningu frá samtökunum segir að þessir starfshættir grafi ekki aðeins undan Schengen samstarfinu heldur auki líka að óþörfu þann mikla samdrátt sem orðið hefur í flug- og ferðageiranum.

Samkvæmt svörum sem Túristi fékk frá dómsmálaráðuneytinu í lok síðustu viku þá var jafnvel búist við nýrri reglugerð í þessari viku. Engin svör hafa þó fengist frá ráðuneytinu um gang mála síðustu daga.