Kallar eftir reglum frá Íslandi um hvaða flugferðir skuli fella niður

Aflýsa þarf fjölda áætlunarferða til Keflavíkurflugvallar næstu daga þar sem afkastageta í smitprófunum á komufarþegum er ekki nægjanlega mikil. Isavia segir það verkefni samræmingarstjóra á vegum Samgöngustofu að fækka flugferðunum. Samræmingarstjórinn sjálfur segir að það sé ekki hans að leggja línurnar.

kef taska 860
Útlit er fyrir að fella þurfi niður flugferðir um tvö þúsund farþega til Íslands næstu daga. Mynd: Isavia

Frá því að smitprófanir á komufarþegum á Keflavíkurflugvelli hófust þann 15. júní þá hefur afkastagetan takmarkast við tvö þúsund sýni á dag. Hingað til hefur ekki reynt á þetta hámark en frá og með miðvikudeginum þarf að fella niður allt að sex áætlunarflug á dag til að halda fjölda komufarþega undir tveimur þúsundum.

Talsmaður Isavia segir að ef fjöldi farþega fer umfram skimunargetu heilbrigðisyfirvalda þá sé það samræmingarstjóri, sem starfar sjálfsætt og er ráðinn af Samgöngustöfu, sem takist á við þá stöðu líkt og Túristi greindi frá í gær.

Sá sem gegnir hlutverki samræmingarstjóra fyrir íslenska flugvelli er Daninn Frank Holton, framkvæmdastjóri Airport Coordination. Hann heldur meðal annars utan um úthlutun lendingarleyfa á Keflavíkurflugvelli og raðar því niður dagskrá flugvallarins.

„Ég sé að Isavia reiknar með að ég, sem samræmingarstjóri, taki að mér það verkefni að valda farþegum og flugfélögum vonbrigðum með því að svipta þau áður staðfestum lendingartímum. Það get ég gert en ákvörðun um slíkt verður að koma frá Samgöngustofu og þaðan þurfa að koma leiðbeiningar um hvernig velja eigi á milli flugferða við þessar sérstöku aðstæður,“ segir Holton í samtali við Túrista nú í morgunsárið.

„Eins og staðan er í dag þá þyrfti að auka afkastagetuna í smitprófunum upp í þrjú þúsund sýni á dag, næstu tvær vikur, til að koma í veg fyrir niðurfellingu á flugferðum,“ útskýrir Holton. Hann bætir við að önnur lausn gæti verið að veita ákveðnum þjóðum undanþágu frá prófunum.

Holton þykir það þó ósanngjarnt að neyða flugrekendur til að fella niður flugferðir vegna stöðunnar hér á landi. „Við sjáum öll að fluggeiranum er við það að blæða út og þar rær fólk lífróður á hverjum degi. Það er því erfitt að innleiða sérstakar hindranir vegna takmarkaðrar afkastagetu í smitprófunum á komufarþegum.“

Samræmingarstjórinn segist líka spyrja sig hver eigi að ábyrgjast kostnaðinn sem hlýst af því að fella niður ferðir fjölda farþega. Ekki bara skaðabætur vegna flugmiða heldur líka vegna kaupa á gistingu, leigu á bílum og svo framvegis.

Samkvæmt upplýsingum Túrista þá hefur verið boðaður aukafundur hjá samræmingarteymi íslenskra stjórnvalda í dag vegna stöðunnar sem upp er komin. Ljóst má þó vera að fyrirsjáanlegt var að afkastagetan í smitprófunum á Keflavíkurflugvelli yrði flöskuháls fyrir flugumferð.

Líkt og Túristi fjallaði um í gær má gera ráð fyrir að ferðaplön um tvö þúsund farþega muni riðlast næstu daga vegna þessar niðurfellinga sem grípa þarf til. Samkvæmt evrópskum reglum eiga farþegar rétt á bótum upp á 400 evrur, 64 þúsund krónur, ef flugferðir eru felldar niður með stuttum fyrirvara. Ef þær reglur ná utan um þær aðstæður sem nú eru komnar upp þá þarf að greiða farþegu næstu daga samtals um 128 milljónir í bætur.