Kominn með 3,64 prósent hlut í Icelandair Group

Fjárfestirinn Högni Pétur Sigurðsson heldur áfram að kaupa hlutabréf í Icelandair samsteypunni. Á sama tíma minnkar hlutur PAR Capital Management.

MYND: BERLIN AIRPORT

Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur fallið um þrjá fjórðu í ár sem rekja má til áhrifa Covid-19. Þannig var gengi bréfanna rétt um 8,5 krónur á hvern hlut seinni hlutann í febrúar en stuttu síðar stöðvaðist flugumferð að mestu vegna heimsfaraldursins. Í dag er gengi bréfanna 1,95 krónur.

Bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Managment var stærsti hluthafinn í íslensku samsteypunni í byrjun kreppunnar með 13,5 prósent hlut. Sjóðurinn hefur aftur á móti selt bréf sín í smáskömmtun allt frá því í vor. Nú er hlutur PAR Capital kominn niður í 11,04 prósent og hefur sjóðurinn losað sig við um 19 milljónir hlutabréfa í Icelandair síðastliðinn mánuð.

Fjárfestirinn Högni Pétur Sigurðsson hefur aftur á móti keypt rúmlega fjórtán milljón bréf í Icelandair Group síðustu fjórar vikur. Í dag fer hann því samtals fyrir 3,64 prósent hlut í Icelandair samkvæmt nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa samteypunnar. Bréf Högna Péturs eru skráð á hann persónulega og svo tvö eignarhaldafélög í hans eigu, Nautica og Zukunft.

Hluthafalistinn sem Icelandair Group birtir vikulega nær aðeins yfir tuttugu stærstu hluthafana. Þar með er ekki útilokað að Högni Pétur eigi fleiri bréf í Icelandair sem þá eru skráð á önnur eignarhaldsfélög.

Högni Pétur hefur ekki viljað tjá sig um fjárfestingu sína í Icelandair Group þegar Túristi hefur leitað eftir því. Markaðsvirði bréfa hans er um 386 milljónir króna nú í byrjun viku.