Leiguverð lækkar vegna samdráttar hjá Airbnb

Nú þegar miklu færri ferðast milli landa þá eykst framboð á leiguhúsnæði til lengri tíma.

FRÁ LONDON. MYND: MIKE STEZYCKI / UNSPLASH

Það var ekki bara hér á landi sem Airbnb náði mikilli útbreiðslu á árunum fyrir Covid-19 heimsfaraldurinn. Útleiga á íbúðum til ferðamanna var nefnilega ábatasamur rekstur víða en nú þegar flestir halda sig heima þá er staðan orðin allt önnur.

Af þeim sökum reyna íbúðaeigendur nú í auknum mæli að koma eignum sínum í leigu með öðrum hætti og það hefur sín áhrif á hinn hefðbundna leigumarkað.

Í miðborg Lundúna jókst þannig framboð á íbúðahúsnæði til leigu um fjórðung í júní. Samkvæmt frétt Bloomberg var stór hluti af viðbótinni húsnæði sem áður hafði verið í útleigu til ferðamanna.

Þetta stóraukna framboð setti líka pressu á leiguverðið miðsvæði í London því það lækkaði um rúmlega sjö af hundraði ef horft er til sama tímabils í fyrra. Aftur á móti hefur þeim fækkað um nærri tíund sem nú eru í leit að leiguhúsnæði í bresku höfuðborginni.