Mikill samdráttur á stærstu norrænu flugvöllunum

Þó flugsamgöngur milli landa hafi aukist umtalsvert seinni hlutann í júní þá var farþegafjöldinn langt undir því sem var á sama tíma í fyrra.

Það var fámennt í Leifsstöð í júní. MYND: ISAVIA

Það fóru rétt rúmlega 29 þúsund farþegar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í júní en þeir voru um 787 þúsund á sama tíma í fyrra. Þetta jafngildir 96,3 prósent samdrætti.

Farþegum fækkaði hlutfallslega nánast jafn mikið á Arlanda í Stokkhólmi, Vantaa í Helsinki og í Kaupmannahöfn eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Í Ósló var aðeins minni samdráttur eða 86,2 prósent og skýringin liggur að mestu í því að innanlandsflugið í Noregi hefur ekki dregist eins mikið saman og alþjóðaflugið.

Keflavíkurflugvöllur býr reyndar við þá sérstöðu meðal vestrænna alþjóðaflugvalla að þar takmarkast umsvifin við millilandaflug. Út í heimi geta farþegar aftur á móti tengt saman innanlands- og alþjóðaflug.