Mikil­vægt að efla þekk­ingu um mannauð íslenskrar ferða­þjón­ustu

Hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum störfuðu hátt í 11 þúsund erlendir ríkisborgarar í fyrra. Þó þeim hafi líklega fækkað töluvert í heimsfaraldrinum þá er mikilvægt að rannsaka betur stöðu þessa stóra hóps að mati skýrsluhöfunda nýrrar úttektar. Þar eru að finna ýmis dæmi um brot á réttindum starfsfólks en þau algengustu snúa að vangoldnum launum.

Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Fjöldi þeirra sem vann í ferða­þjón­ustu í aðal­starfi tvöfald­aðist í tengslum við hraðan vöxt ferða­þjón­ustu hér á landi. Þegar mest lét, árið 2018, voru starfs­menn grein­inni tæp 15 prósent af vinnu­mark­aðnum. Það var hærra hlut­fall en þekktist í öðrum OECD ríkj­unum. Á eftir Íslandi kom Spánn þar sem tæp 14 prósent á vinnu­markaði störfuðu í ferða­þjón­ustu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Rann­sókn­ar­mið­stöðvar ferða­mála um aðstæður erlends starfs­fólks í ferða­þjón­ustu. Vægi erlendra starfs­manna er hátt í atvinnu­grein­inni og hvergi meira en í gisti­geir­anum þar sem rúmur meiri­hluti starfs­manna eru erlendir ríkis­borg­arar. Samtals unnu hátt í ellefu þúsund útlend­ingar hjá íslenskum ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækjum í fyrra.

Úttekt Rann­sókn­ar­mið­stöðvar ferða­mála byggir á viðtölum við full­trúa stétt­ar­fé­laga og erlent starfs­fólk. Og meðal helstu niður­staðna er að algeng­ustu brotin á starfs­mönnum snúa að vangreiddum launum. Þá aðal­lega í tengslum við álags­greiðslur vegna vakta­vinnu eða skipt­ingu launa í dagvinnu og eftir­vinnu.

„Talað var um jafn­að­ar­laun og tvískiptar vaktir sem sérstakt vandamál í ferða­þjón­ustu, sem fæli í sér brot á kjara­samn­ingum. Á tvískiptum vöktum er starfs­fólk látið vinna á álags­tímum að morgni eða í hádegi, fara síðan í nokkra tíma pásu án launa og mæta aftur til vinnu í kringum kvöldmat, þar sem það hentar starf­sem­inni,” segir í skýrsl­unni.

Fram kom í viðtölum við full­trúa stétt­ar­fé­laga að þau væru undir miklu álagi við að sinna eftir­liti og að ýmissa úrbóta væri þörf til að tryggja betur að erlent starfs­fólk í ferða­þjón­ustu verði ekki fyrir brotum á reglum sem hér gilda á vinnu­markaði. Í skýrsl­unni kemur þó fram að ekki virtist munur á aðstæðum íslenskra og erlendra starfs­manna þegar horft væri til launa og brota.

Fjöldi annarra vanda­mála eru rakin í skýrsl­unni. Til að mynda ólaunuð vinna sjálf­boða­liða, skortur á almennri upplýs­inga­gjöf, réttur til orlofs, tíma­bundnar ráðn­ingar, húsnæð­ismál og fleira.

Í loka­orðum skýrslu­höf­undar segir að mikil­vægt sé að efla þekk­ingu um mannauð íslenskrar ferða­þjón­ustu. Því fátt bendi til annars en að áfram þurfi að leita eftir starfs­kröftum erlendis frá til að þjóna ferða­mönnum á Íslandi þrátt fyrir þau miklu áhrif sem Covid-19 hefur haft á ferða­þjón­ustu í ár.