Mikilvægt að efla þekkingu um mannauð íslenskrar ferðaþjónustu

Hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum störfuðu hátt í 11 þúsund erlendir ríkisborgarar í fyrra. Þó þeim hafi líklega fækkað töluvert í heimsfaraldrinum þá er mikilvægt að rannsaka betur stöðu þessa stóra hóps að mati skýrsluhöfunda nýrrar úttektar. Þar eru að finna ýmis dæmi um brot á réttindum starfsfólks en þau algengustu snúa að vangoldnum launum.

Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Fjöldi þeirra sem vann í ferðaþjónustu í aðalstarfi tvöfaldaðist í tengslum við hraðan vöxt ferðaþjónustu hér á landi. Þegar mest lét, árið 2018, voru starfsmenn greininni tæp 15 prósent af vinnumarkaðnum. Það var hærra hlutfall en þekktist í öðrum OECD ríkjunum. Á eftir Íslandi kom Spánn þar sem tæp 14 prósent á vinnumarkaði störfuðu í ferðaþjónustu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála um aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Vægi erlendra starfsmanna er hátt í atvinnugreininni og hvergi meira en í gistigeiranum þar sem rúmur meirihluti starfsmanna eru erlendir ríkisborgarar. Samtals unnu hátt í ellefu þúsund útlendingar hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum í fyrra.

Úttekt Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála byggir á viðtölum við fulltrúa stéttarfélaga og erlent starfsfólk. Og meðal helstu niðurstaðna er að algengustu brotin á starfsmönnum snúa að vangreiddum launum. Þá aðallega í tengslum við álagsgreiðslur vegna vaktavinnu eða skiptingu launa í dagvinnu og eftirvinnu.

„Talað var um jafnaðarlaun og tvískiptar vaktir sem sérstakt vandamál í ferðaþjónustu, sem fæli í sér brot á kjarasamningum. Á tvískiptum vöktum er starfsfólk látið vinna á álagstímum að morgni eða í hádegi, fara síðan í nokkra tíma pásu án launa og mæta aftur til vinnu í kringum kvöldmat, þar sem það hentar starfseminni,“ segir í skýrslunni.

Fram kom í viðtölum við fulltrúa stéttarfélaga að þau væru undir miklu álagi við að sinna eftirliti og að ýmissa úrbóta væri þörf til að tryggja betur að erlent starfsfólk í ferðaþjónustu verði ekki fyrir brotum á reglum sem hér gilda á vinnumarkaði. Í skýrslunni kemur þó fram að ekki virtist munur á aðstæðum íslenskra og erlendra starfsmanna þegar horft væri til launa og brota.

Fjöldi annarra vandamála eru rakin í skýrslunni. Til að mynda ólaunuð vinna sjálfboðaliða, skortur á almennri upplýsingagjöf, réttur til orlofs, tímabundnar ráðningar, húsnæðismál og fleira.

Í lokaorðum skýrsluhöfundar segir að mikilvægt sé að efla þekkingu um mannauð íslenskrar ferðaþjónustu. Því fátt bendi til annars en að áfram þurfi að leita eftir starfskröftum erlendis frá til að þjóna ferðamönnum á Íslandi þrátt fyrir þau miklu áhrif sem Covid-19 hefur haft á ferðaþjónustu í ár.