Næst stærsti hlut­hafi Norwegian er meðal viðsemj­enda Icelandair

TF-ICA er í dag eina Boeing MAX 9 þotan í flota Icelandair. Sú flugvél er í eigu kínverskrar flugvélaleigu sem jafnframt á nærri 13 prósent hlut í einum helsta keppinaut Icelandair.

Hinar kyrrsettu MAX þotur Icelandair. TF-ICA sem er í eigu BOC Capital stendur þarna fremst. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Flug­véla­leigur, skulda­bréfa­eig­endur og aðrir kröfu­hafar tóku Norwegian yfir nú í sumar­byrjun í tengslum við fjár­hags­lega endur­skipu­lagn­ingu flug­fé­lagsins. Eldri hlut­hafar héldu eftir litlum hlut í fyrir­tækinu.

Þessi umbreyting var forsenda fyrir því að Norwegian fengi neyð­arlán frá norska ríkinu. Skil­yrðin voru nefni­lega þau að flug­fé­lagið myndi grynka á skuldum og hækka eigin­fjár­hlut­fallið.

Það sem vakti einna mesta athygli við þessa uppstokkun, á eign­ar­haldi Norwegian, var að kínverska ríkið varð óbeint næst stærsti hlut­hafinn í norska flug­fé­laginu í gegnum flug­véla­leiguna BOC Aviation. Það fyrir­tæki tilheyrir ríkis­bank­anum Bank of China.

Kínverj­arnir eiga því í dag 12,7 prósent hlut í Norwegian en líkt og Túristi hefur áður rakið þá hefur norska flug­fé­lagið veitt Icelandair gríð­ar­lega samkeppni í flugi til Norður-Ameríku síðustu ár.

Og þessa dagana vinna stjórn­endur Icelandair að því að byggja upp fjárhag síns flug­fé­lags á ný. Í tengslum við þá vinnu eiga sér stað viðræður við flug­véla­leigu­sala líkt og fram kom í tilkynn­ingu frá félaginu á mánu­dags­morgun.

Meðal þeirra sem þá þurfa að koma til móts við Icelandair er einmitt BOC Aviation. Það félag á nefni­lega Boeing MAX9 þotuna sem Icelandair fékk afhenda í febrúar 2019. Nokkrum vikum áður en MAX þotur voru kyrr­settar um allan heim.

Icelandair hafði sjálft keypt þessa MAX þotu árið 2012 en tveimur mánuðum fyrir afhend­ingu hennar þá seldi félagið flug­vélina til BOC Aviation og endur­leigði á ný. Þess háttar viðskipti eru algeng í rekstri flug­fé­laga.

Skuld­bind­ingin gagn­vart BOC Aviation eru þó líklega mun meiri því í kaup­hall­ar­til­kynn­ingu Icelandair, í árslok 2018, kemur fram að kínverska flug­véla­leigan kaupi tvær af MAX þotum Icelandair og endur­leigi svo á ný til félagsins. Því til viðbótar átti BOC Aviation að fjár­magna fyrir­fram­greiðslur Icelandair á Boeing MAX flug­vélum sem þá stóð til að afhenda 2019 og 2020.

„Fjár­mögn­unin nemur um 200 millj­ónum banda­ríkja­dollara á tíma­bilinu og sjóðs­staða félagsins hækkar um 160 millj­ónir banda­ríkja­dollara í kjölfar samn­ingsins,” segir í tilkynn­ing­unni. Í komandi hluta­fjárút­boði Icelandair er einmitt ætlunin að fá inn nýtt hlutafé fyrir 200 millj­ónir dollara. Það jafn­gildir um 28 millj­örðum króna á gengi dagsins.

Aðeins önnur þessara MAX þota sem BOC Aviation keypti af Icelandair í árslok 2018 náði hingað til lands fyrir kyrr­setn­inguna í mars í fyrra. Sú stað­reynd gæti haft sitt að segja varð­andi heild­ar­skuld­bind­ingu Icelandair gagn­vart kínversku flug­véla­leig­unni.

Þess má geta að það er mjög óvenju­legt að flug­véla­leigur eigi stóran hlut í flug­fé­lagi eins og nú er raunin með Norwegian. Þess háttar getur flækt stöðu leigu­fyr­ir­tækj­anna gagn­vart öðrum flug­fé­lögum og viðskipta­vinum. Það er því almennt búist við að breyt­ingar verði á eigenda­hópi Norwegian fyrr en síðar.