Nýr samningur eftir málamiðlun

Tveimur sólarhringum eftir að Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum og flugþjónum félagsins þá hefur nýr samningur milli deiluaðila verið undirritaður. Sá byggir í meginatriðum á því samkomulagi sem Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands undirrituðu þann 25. júní. Sá var hins vegar kolfelldur af félagsmönnum.

Nú gaf Icelandair eftir tvö umdeild atriði því samkvæmt fréttum RÚV þá náðist málamiðlun um aukafrídaga fyrir flugfreyjur eldri en sextíu ára og um svokallaða sex daga reglu sem snýr að því að ekki megi setja flugfreyju á skrá fleiri en sex daga samfellt.

Nýi samningurinn, sem gildir til 30. september 2025, felur þó í sér aukna hagræðingu fyrir Icelandair samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi frá sér í nótt.

Stefnt er að hlutafjárútboði Icelandair Group í næsta mánuði og hafa stjórnendur félagsins lagt ofuráherslu á að langtímasamninga við flugmenn, flugvirkja og flugfreyjur. Auk þess er stefnt að því að ná nýju samkomulagi við kröfuhafa, flugvélaeigendur og Boeing. Ekki hafa borist fréttir af gangi mála í þeim viðræðum.