Nýtt hlutafé, ríkislán og kjaraskerðingar en engar afskriftir

Ekki er lengur horft til þess að kröfuhafar breyti hluta af skuldum í hlutafé í komandi hlutafjárútboði Icelandair Group.

Ein af MAX þotum Icelandair Mynd: Boeing

Þegar boðað hlutafjárútboð Icelandair Group var kynnt hluthöfum fyrirtækisins í maí sl. þá kom fram að mögulega yrði hægt að greiða fyrir hlutafé með skuldabreytingu.

Sambærileg leið var farin í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Norwegian nú í vor þegar kröfuhafar tóku félagið yfir. Í komandi hlutafjárútboði SAS er einnig lagt upp með að skuldabréfaeigendur breyti hluta af sínum kröfum í hlutafé.

Hjá Icelandair er þó ekki lengur stefnt að þess háttar samkvæmt því sem Fréttablaðið hefur í dag eftir Evu Sóleyju Guðbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Icelandair Group. Þar er hún spurð hvort Icelandair óski eftir skuldbreytingu við lánardrottna, þ.e.a.s. að kröfum á flugfélagið verði breytt í hlutafé, en því svarar Eva Sóley neitandi.

„Viðræðurnar snúast ekki um skuldbreytingu heldur erum við að horfa til þess að styrkja lausafjárstöðu félagsins með því að aðlaga afborganir að áætluðu sjóðsstreymi á meðan félagið flýgur lítið.“

Eva Sóley bætir við að unnið sé að því að afborganir til lánardrottna verði aðlagaðar að áætluðu sjóðsstreymi. Hluthafar komi svo inn með nýtt fjármagn og að félagið geti dregið á lánalínu frá ríkinu ef ládeyðan á markaðnum varir lengur en spár stjórnenda Icelandair gera ráð fyrir.

Af þessu að dæma þá þurfa stórir lánadrottnar eins og Landsbankinn, Íslandsbanki og CIT bankinn ekki að afskrifa hluta af sínum kröfum á Icelandair eða breyta lánum í hlutafé. Á sama hátt er þá ekki heldur lagt upp með að eigendur fjögurra MAX þota Icelandair tapi fé.

Í hlutafjárútboði Icelandair Group er stefnt að því að safna allt að 200 milljónum dollara sem jafngildir um 28 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Stjórnendur Icelandair hafa lagt mikla áherslu á að ná langtíma kjarasamningum við áhafnir félagsins fyrir útboðið. Þeir samningar hafa meðal annars falið í sér aukna vinnuskyldu og kjaraskerðingar.