Óljóst hver ber ábyrgð á farþegum sem fá ekki að fljúga til Íslands

Fella verður niður fjölda flugferða á næstu dögum. Vandinn er takmörkuð afköst við sýnatökur. Óvíst er hver endurgreiði farþegum farseðlakaupin og hugsanlegar skaðabætur.

Mynd: Isavia

Um miðjan júní opnaði fjöldi Evrópuríkja landamæri sín og önnur féllu frá kröfunni um tveggja vikna sóttkví aðkomufólks. Ísland er aftur á móti eina ríkið í þessum hópi sem skyldar alla í sýnatöku vegna Covid-19 þegar komið er til landsins. Afkastagestan í sýnatökunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er áfram tvö þúsund próf yfir sólarhringinn.

Þetta hámark hefur ekki takmarkað flugumferð til landsins frá því að reglan gekk í gildi 15. júní sl. Nú er aftur á móti útlit fyrir að fella þurfi niður fjölda flugferða vegna hinnar takmörkuðu afkastagetu.

Þannig herma heimildir Túrista að aflýsa þurfi allt að átján áætlunarferðum til Keflavíkurflugvallar dagana 15. til 21. júlí. Ekki liggur fyrir hvernig velja eigi hvaða flugfélög fá að koma og hver ekki. En Icelandair er með um helming af öllum flugferðum til og frá landinu þessa dagana.

Ef fella þarf niður öll þessi átján flug þá má gera ráð fyrir að það hafi áhrif á ferðir um tvö þúsund farþega í það minnsta. Hvort það eru flugfélög og ferðaskrifstofur sem eiga að endurgreiða farþegunum eða jafnvel íslensk stjórnvöld eru líka vafaatriði samkvæmt viðmælendum Túrista.

Það er Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll en í samtali við Túrista segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að það sé ekki í verkahring fyrirtækisins að finna lausn á stöðunni.

„Ef að sú staða kemur að fjöldi farþega fer umfram skimunargetu heilbrigðisyfirvalda á Keflavíkurflugvelli þá er það samræmingarstjóri, sem starfar sjálfsætt og er ráðinn af Samgöngustöfu, sem tekur á því verkefni. Isavia er eingöngu milliliður um upplýsingar um hvaða takmarkanir gilda á Keflavíkurflugvelli,“ segir Guðjón.

Sem fyrr segir er Ísland eina ríkið í Evrópu sem skyldar alla í sýnatöku við komuna til landsins.