Óljóst hver ber ábyrgð á farþegum sem fá ekki að fljúga til Íslands

Fella verður niður fjölda flugferða á næstu dögum. Vandinn er takmörkuð afköst við sýnatökur. Óvíst er hver endurgreiði farþegum farseðlakaupin og hugsanlegar skaðabætur.

Mynd: Isavia

Um miðjan júní opnaði fjöldi Evrópu­ríkja landa­mæri sín og önnur féllu frá kröf­unni um tveggja vikna sóttkví aðkomu­fólks. Ísland er aftur á móti eina ríkið í þessum hópi sem skyldar alla í sýna­töku vegna Covid-19 þegar komið er til landsins. Afkasta­gestan í sýna­tök­unni í Flug­stöð Leifs Eiríks­sonar er áfram tvö þúsund próf yfir sólar­hringinn.

Þetta hámark hefur ekki takmarkað flug­um­ferð til landsins frá því að reglan gekk í gildi 15. júní sl. Nú er aftur á móti útlit fyrir að fella þurfi niður fjölda flug­ferða vegna hinnar takmörkuðu afkasta­getu.

Þannig herma heim­ildir Túrista að aflýsa þurfi allt að átján áætl­un­ar­ferðum til Kefla­vík­ur­flug­vallar dagana 15. til 21. júlí. Ekki liggur fyrir hvernig velja eigi hvaða flug­félög fá að koma og hver ekki. En Icelandair er með um helming af öllum flug­ferðum til og frá landinu þessa dagana.

Ef fella þarf niður öll þessi átján flug þá má gera ráð fyrir að það hafi áhrif á ferðir um tvö þúsund farþega í það minnsta. Hvort það eru flug­félög og ferða­skrif­stofur sem eiga að endur­greiða farþeg­unum eða jafnvel íslensk stjórn­völd eru líka vafa­at­riði samkvæmt viðmæl­endum Túrista.

Það er Isavia sem rekur Kefla­vík­ur­flug­völl en í samtali við Túrista segir Guðjón Helgason, upplýs­inga­full­trúi Isavia, að það sé ekki í verka­hring fyrir­tæk­isins að finna lausn á stöð­unni.

„Ef að sú staða kemur að fjöldi farþega fer umfram skimun­ar­getu heil­brigð­is­yf­ir­valda á Kefla­vík­ur­flug­velli þá er það samræm­ing­ar­stjóri, sem starfar sjálfsætt og er ráðinn af Samgöngu­stöfu, sem tekur á því verk­efni. Isavia er eingöngu milli­liður um upplýs­ingar um hvaða takmark­anir gilda á Kefla­vík­ur­flug­velli,” segir Guðjón.

Sem fyrr segir er Ísland eina ríkið í Evrópu sem skyldar alla í sýna­töku við komuna til landsins.