Ríflega tvöfalt fleiri gistinætur í júní

Hagstofan hefur sent frá sér bráðabirgðaútreikninga á fjölda gistinótta á hótelum landsins í nýliðnum júní.

Fyrir utan Hótel KEA. Mynd: Keahótelin

Um miðjan síðasta mánuð jókst flugumferð til og frá landinum töluvert eftir að landamæri víða í Evrópu opnuðust á ný. Þar með fjölgaði ferðafólki hér á landi landi líkt og nýjar bráðabirgðatölur Hagstofunnar eru til marks um.

Þær sýna að gistinætur á hótelum hafi verið um níutíu þúsund í júní. Til samanburðar voru þær um 37 þúsund í maí. Samdrátturinn nemur engu að síður 79 prósentum frá sama tíma í fyrra.

Hafa ber í huga að þessir bráðabirgðaútreikningar Hagstofunnar byggja aðeins á gistináttaskýrslum þeirra hótela sem skila þessum mánaðarlegu tölum fyrsta allra. Það er um fimmtungur hótela.

Helsta ástæða þess að Hagstofan gefur nú út þessa bráðabirgðaútreikninga í fyrsta sinn er sú mikla breyting sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni. Hún ýti undir þörfina fyrir tímanlegar hagtölur fyrir greinina eins og segir í frétt á vef Hagstofunnar.