Saka Boeing um svindl og samningsbrot

Stjórnendur Norwegian hafa látið af því verða að stefna bandaríska flugvélaframleiðandum vegna endurtekinna galla í þeim þotum sem félagið hefur keypt síðustu ár.

Ein af Dreamliner þotum Norwegian en félagið keypti meðal annars flugvélar af þeirri gerð af Icelandair í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu á íslenska félaginu. MYND: NORWEGIAN

Norwegian var eitt þeirra flugfélaga sem nýtti Boeing 737 MAX þotur í Íslandsflug áður en flugvélar af þessari gerð voru kyrrsettar um heim allan. Þá hafði norska félagið tekið í notkun átján MAX þotur eða þrisvar sinnum fleiri en Icelandair. Öfugt við Icelandair þá hefur Norwegian ekki ennþá sótt bætur til Boeing vegna kyrrsetningarinnar.

Norwegian á ennþá eftir að fá níutíu og tvær MAX þotur frá Boeing en stjórnendur þess vilja losna undan þeirri skuldbindingu líkt og tilkynnt var fyrr í lok júní.

Þá hótuðu þeir Boeing jafnframt málsókn vegna málsins og nú hafa þeir stigið það skref. Í stefnu félagsins, sem norskir fjölmiðlar hafa sagt frá, sakar Norwegian bandaríska flugvélaframleiðandann um alvarlegt gáleysi, óheiðarleg vinnubrögð og samningsbrot. Ekki bara í tengslum við söluna á MAX flugvélunum umtöluðu heldur líka vegna Boeing 787 Dreamliner.

Þær síðarnefndu hafa nefnilega líka reynst miklir gallagripir sem skrifast þó aðallega á endurteknar bilanir á Rolls Royce hreyflum þotanna. Norwegian á pantaðar fimm þannig þotur og vill líka rifta þeim kaupsamningi.

Samkvæmt frétt E24 í Noregi þá fer Norwegian fram á endurgreiðslu á innborgunum vegna allra þeirra flugvéla sem Boeing hefur ekki afhentar. Auk þess krefjast Norðmennirnir skaðabóta vegna endurtekinna galla í MAX og Dreamliner þotunum.

Máli sínu til stuðnings vísar Norwegian til þess að framleiðsluferli MAX þotanna hafi einkennst af pressu á mikil afköst á kostnað gæða og eftirlits. Auk þess hafi flugvélaframleiðandinn ekki staðið rétt að vottun á þotunum líkt og fram hefur komið í rannsókn bandarískra yfirvalda á Boeing.