Samdrátturinn hjá Icelandair, Finnair og SAS í júní

Þó flugumferð hafi aukist þónokkuð seinni hlutann í síðasta mánuði þá eru umsvif flugfélaganna ennþá langt undir því sem var fyrir Covid-19 faraldurinn.

MYND: ICELANDAIR - SIGURJÓN RAGNAR / SR-PHOTOS

Þotur Icelandair flugu um eitt hundrað áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli í júní sem var ríflega þrefalt meira en í maí. Þetta er þó miklu minni traffík en á sama tíma í fyrra. Til marks um það þá fækkaði farþegum Icelandair um 97 prósent í júní samkvæmt mánaðarlegum tölum félagsins.

Niðursveiflan var nærri því sú sama hjá Finnair í júní eða 96 prósent. Hjá SAS fækkaði farþegum minna eða um 88,1 prósent. Megin skýringin á hlutfallslega minni samdrætti hjá SAS en hinum tveimur liggur í innanlandsfluginu. SAS hefur nefnilega skorið það minna niður en alþjóðaflugið síðustu vikur.

Sama á við hjá hér á landi því framboðið hjá Air Iceland Connect skrapp minna saman í júní en hjá Icelandair.

Samdrátturinn í vöruflutningum á vegum Icelandair nam aðeins níu prósentum í júní þrátt fyrir miklu minna áætlunarflug. Hjá Finnair drógust vöruflutningar saman um nærri þrjá fjórðu eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.