Söknuðu átta af hverjum tíu hótelgestum

Það var ekki fyrr en um miðjan júní sem flugsamgöngur urðu með eðlilegri hætti á ný. Þar með var niðursveiflan á íslenskum hótelum og gistiheimilum mikil í júní sem væntanlega má að mestu rekja til fyrri hluta mánaðar.

Framboð á hótelherbergjum í Reykjavík dróst verulega saman í júní. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júní síðastliðnum dróst saman um 72 prósent samanborið við júní 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 79 prósent og um 75 prósen á gistiheimilum samkvæmt tilkynningu frá Hagstofunni.

Þar kemur jafnframt fram að fækkunin á öðrum tegundum gististaða, t.d. farfuglaheimilum, orlofshúsum og tjaldsvæðum nam 63 prósentum.

Um 86 prósent gistinátta voru skráðar á Íslendinga eða um 227 þúsund. Gistinætur útlendinga voru um 36.400 eða 14 prósent af heildinni.

Framboð á gistirými hefur líka dregist verulega saman og þannig voru 32 hótel lokuð í júní. Mestur samdrátturinn varð á höfuðborgarsvæðinu þar sem framboð á hótelherbergjum dróst saman um nærri fjörutíu af hundraði. Þrátt fyrir það var nýtingin rétt um 11 prósent. Hún var aftur á móti 77,4 prósent í sama mánuði í fyrra.

Besta nýtingin var á Norðurlandi, Austurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum eða tæpur þriðjungur.

Líkt og kom í máli framkvæmdastjóra Íslandshótela, hér á Túrista, þá var herbergjanýting út á landi miklu betri í júlí en á höfuðborgarsvæðinu. Meðalverðið er aftur á móti mun lægra en á sama tíma í fyrra.