Stjórnendur Ryanair hræðast helst aðra bylgju í haust

Það voru sárafáir á ferðinni á síðasta ársfjórðungi og þá var afkoma Ryanair verri en nokkru sinni fyrr. Erfitt er að ráða í framhaldið að mati forsvarsfólks félagsins.

MYND: RYANAIR

Afkoma Ryanair á síðasta ársfjóðungi var neikvæð um 185 milljónir evra sem samsvarar 29 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra skilaði félagið hins vegar 38 milljarða króna hagnaði. Þetta kemur fram í uppgjöri sem írska flugfélagið sendi frá sér í morgun og nær yfir apríl, maí og júní.

Þar segir að ársfjórðungurinn hafi verið sá mest krefjandi í 35 ára sögu Ryanair og skrifast það á ástandið sem Covid-19 hefur valdið. Horfurnar eru líka heldur dökkar og óttinn við aðra bylgju faraldursins nú í haust er þannig helsta áhyggjuefni stjórnenda þessa umsvifamesta lágfargjaldaflugfélags Evrópu samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Af þeim sökum gefur Ryanair ekki út neina afkomuspá fyrir rekstrarárið sem byrjaði 1. apríl og stendur til 31.mars á næsta ári.

Ryanair er eitt þeirra flugfélaga sem veðjaði á Boeing MAX þoturnar en nú er ár liðið frá því að félagið átti að fá afhentar fyrstu þoturnar af þeirri tegund. Í dag gerir forsvarsfólk Ryanair sér aftur á móti vonir um að fá fyrstu MAX flugvélina fyrir lok þessa árs.