Samfélagsmiðlar

Telur engar líkur á að Icelandair verði gjaldþrota

Rekstur margra flugfélaga mun stöðvast vegna ástandsins sem útbreiðsla Covid-19 hefur valdið. Icelandair ætti þó ekki að verða eitt af þeim segir norskur sérfræðingur í flugrekstri. Hann telur að ríkið verði að koma að flugfélaginu með öðrum hætti en með lánveitingum.

icelandair 767 757

„Þetta er jákvæð niðurstaða í þessari alvarlegri deilu. Þessi átök hafa þó vafalítið valdið skaða innan Icelandair og það mun taka einhvern tíma fyrir sárin að gróa,” segir Hans Jørgen Elnæs, norskur sérfræðingur í flugrekstri, um harðar kjaraviðræður Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands. 

Elnæs hefur fylgst með Icelandair og íslenskum flugrekstri í gegnum tíðina og meðal annars rætt stöðu WOW og Play hér á síðum Túrista. Í sumarbyrjun fór hann yfir stöðu Icelandair í viðtali við Kastljós RÚV og hann tjáir sig reglulega um flugrekstur í skandinavísku viðskiptapressunni.

Og Norðmaðurinn segist ekki hafa trú á því að Icelandair verði gjaldþrota þrátt fyrir erfiða stöðu og þá kreppu sem nú ríkir í fluggeiranum.

„Ríkisstjórnin mun örugglega gera allt sem þarf til að styðja við fyrirtækið í ljósi mikilvægi þess fyrir landið. Icelandair er líka þekkt vörumerki og með gott orðspor líkt og ráðamenn þjóðarinnar eru vafalítið meðvitaðir um. Eyríki í miðju Atlantshafi getur heldur ekki tekið áhættuna hvað samgöngur varðar. Að setja allt sitt traust á erlend flugfélög sem Ísland hefur þá enga stjórn yfir er ekki skynsamlegt og ennþá eru áformin varðandi Play óljós.“

Þetta lykilhlutverk Icelandair í íslenskum þjóðarbúskap gæti þó, að mati Elnæs, veikt samningsstöðu þess í yfirstandandi viðræðum flugfélagins við kröfuhafa, birgja, Boeing og flugvélaleigur. „Þessir viðsemjendur trúa því væntanlega ekki heldur að Icelandair verði lokað. Smæð félagsins gerir það svo ennþá snúnara að endursemja um núverandi skuldbindingar. Boeing á til að mynda í dag í samningaviðræðum við miklu stærri viðskiptavini en Icelandair.”

Norski sérfræðingurinn undirstrikar að hann sé enginn sérstakur talsmaður þess að flugfélög séu í opinberri eigu. Staðan í heiminum í dag sé hins vegar óvenjuleg og það kalli á nýtt mat.

„Ég tel að hið opinbera verði á endanum að kaupa sig inn í Icelandair og þá eignast meira en helming í félaginu. Á þessum hlut situr ríkið svo á í fimm til sjö ár eða þangað til öruggt er að flugfélagið komist í gegnum þessa ókyrrð sem nú ríkir. Þar með yrðu líka flugsamgöngur tryggðar, bæði í millilandaflugi og innanlands. Það skiptir sköpum fyrir íslenskt þjóðarbú. Þegar Icelandair er svo orðið sjálfbært á ný þá getur ríkið selt sinn hlut og þá til íslenskra lífeyrissjóða og fjárfesta. Alla vega verður að tryggja að félagið sé áfram undir stjórn Íslendinga en ekki erlendra fjárfesta,” útskýrir Elnæs.

Hann bendir á að sem hluthafi þá geti ríkið líka haft um það að segja hvaða þjónustu fyrirtækið veiti, t.d. varðandi flugframboð til ákveðinna staða.

Aftur á mót er það mat Elnæs að ríkisstuðningur í formi lána, eins og nú eru á teikniborðinu í Stjórnarráðinu, muni ekki hjálpa Icelandair. Þess háttar þyngi aðeins skuldabaggann og ennþá sé óvissan varðandi áhrif Covid-19 mjög mikil.

Í lok síðustu viku afturkallaði Icelandair uppsagnir hluta þeirra flugmanna sem sagt var upp í vor. Fjöldinn var þó nokkru undir því sem forsvarsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna bundu vonir við. Samtals er aðeins gert ráð 139 flugmönnum hjá félaginu á næstunni.

Miðað við þann fjölda liggur fyrir að stór hluti af flugflota Icelandair verður áfram að jörðu niðri. „Þar með munu tekjurnar ekki aukast nægjanlega mikið og af öllum líkum mun félagið halda áfram að brenna peningum út árið og þar með fara inn í erfiðan vetur í ennþá veikari stöðu,” segir Elnæs að lokum.

Á morgun birtist hér á Túrista greining norska sérfræðingsins á áformum Play.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …