Telur mjög áhættusamt fyrir Play að fara í loftið í haust

Það er lítið um bókanir á flugmiðum fram í tímann og óvissan vegna Covid-19 er mikil. Það er því skynsamlegra að bíða með að setja Play í loftið að mati norsks sérfræðings í flugrekstri.

„Ég hef áður sagt að ég tel ekki að Icelandair verði gjaldþrota en ef það myndi gerast á næstu mánuðum þá væri það sennilega eina ástæðan fyrir Play að byrja nú þegar í ár," segir Hans Jørgen Elnæs. SKJÁMYND: PLAY

Þegar hulunni var svipt af áformum Play í byrjun nóvember í fyrra þá var gert ráð fyrir að áætlunarflug þess myndi hefjast strax um síðustu áramót. Þá lýsti Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi í flugrekstri, efasemdum um þau áform í ljósi þess að jafnan eru fáir á ferðinni fyrstu mánuði ársins og flugfélög þá rekin með tapi. Hann taldi vænlegra að bíða fram til vorsins.

Ekki tókst að komast Play í loftið í ársbyrjun og stuttu síðar kom Covid-19 krísan.

Nú er stefnt að áætlunarflugi Play með haustinu líkt og kom fram í nýlegu viðtali Túrista við Arnar Má Magnússon, forstjóra. Hinn norski fluggreinandi er ekki sannfærður um kosti þeirrar tímasetningar í ljósi stöðunnar sem fluggeirinn er í og telur aftur betra að hefja leik á vormánuðum.

„Það verður að teljast mikil áhætta að hefja flug nú í haust. Bókanir fram í tímann eru ennþá mjög takmarkaðar og vegna Covid-19 þá vitum við ekki hvaða markaðir opnast eða hvernig eftirspurnin þróast. Það er líka hægt að spyrja sig hver vill, á þessum óvissutímum, kaupa flugmiða hjá nýju flugfélagi sem fólk þekkir ekki til. Og höfum í huga að Play hefur haft áform um að fljúga til áfangastaða sem nú þegar önnur flugfélög bjóða upp á ferðir til frá Íslandi. Félagið yrði ekki bara í samkeppni við Icelandair heldur líka þekkt erlend flugfélög,“ útskýrir Elnæs.

„Ég hef áður sagt að ég tel ekki að Icelandair verði gjaldþrota en ef það myndi gerast á næstu mánuðum þá væri það sennilega eina ástæðan fyrir Play að byrja nú þegar í ár. Önnur flugfélög kæmu þá líka inn á markaðinn í auknum mæli. Félög eins easyJet, Wizz, SAS, Transavia, Norwegian og Aerlingus geta byrjað um leið því öll eru þau með umframafkastagetu í dag. Þau þurfa ekki fyrst að leigja flugvélar, ráða áhafnir o.s.frv.“

Spurður hvort hann þekki til fleiri nýrra flugfélaga sem eru í startholunum núna þá segir Elnæs svo ekki vera. Aftur á móti tali margir um að nú gæti verið rétti tímapunkturinn að setja nýtt félag í loftið þar sem kostnaðurinn er miklu lægri en áður. Leiguverð á flugvélum hefur fallið og eins er olíuverð lágt. „Það er aftur á móti staðreynd að þú þarft líka á farþegum að halda. Íslenski markaðurinn er það lítill að þú verður líka að fá farþega frá Evrópu.“ 

Í viðtali í Kastljósi í sumarbyrjun lýsti Elnæs efasemdum sínum um viðskiptamódel Icelandair, þ.e. að gera út á tengiflug milli Evrópu og Norður-Ameríku. Máli sínu til stuðnings benti hann á að útlit væri fyrir að samkeppnin yrði áfram hörð á þeim markaði og nú eru að koma langdrægar, minni þotur sem gera fleiri flugfélögum kleift að hefja flug milli heimsálfa. Forsvarsmenn Play gera líka ráð fyrir tengiflug í sinni starfsemi líkt og WOW gerði einnig.

„Ég hef ekki trú á þessu módeli og tel skynsamlegra að fókusa á flug milli tveggja áfangstaða (point-to-point). Að nýta Ísland sem sérstaka skiptistöð skapar engar alvöru tekjur nema fyrir flugvöllinn og fríhafnarverslanir.“