Þurfa að fella niður flug­ferðir vegna takmarkana við sýna­tökur

Afkastageta við skimun flugfarþega vegna Covid-19 hefur ekki verið aukin í takt við fjölgun áætlaðra flugferða. Þar með þarf að draga úr umferð um Keflavíkurflugvöll.

Mynd: Isavia

Aflýsa þarf nokkrum áætl­un­ar­flugum á degi hverjum til Kefla­vík­ur­flug­vallar frá og með næstu viku. Ástæðan er sú að áfram takmarkast fjöldi sýna­taka á Kefla­vík­ur­flug­velli, vegna Covid-19, við tvö þúsund á dag.

Hingað til hefur flug­um­ferðin verið það takmörkuð að þessu hámarki hefur ekki verið náð. Frá og með næstu viku horfir þó öðru­vísi við því þá fjölgar ráðgerðum áætl­un­ar­ferðum hingað þónokkuð. Þar með stefnir í að farþega­fjöldinn fari nokkuð yfir tvö þúsund á dag.

Stjórn­endum þeirra flug­fé­laga sem halda úti flugi til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli hefur því verið tilkynnt að fella þurfi niður hluta af fluginu hingað til lands strax í næstu viku samkvæmt heim­ildum Túrista. Ekki mun þó liggja fyrir hvaða ferðir verða felldar niður eða hvaða aðferðum verður beitt við þá vinnu.

Þórólfur Guðnason, sótt­varna­læknir, boðaði í gær breyttar áherslur við landa­mæra­skimun frá og með næstu mánaða­mótum. Þá væri hægt að hleypa fleirum inn í landið en nú er gert.

Í dag er Ísland eina opna landið í Evrópu þar sem gerð er krafa um að allir þeir sem koma til landsins gangist undir smit­próf. Sum ríki í álfunni takmarka þó ferða­manna­strauminn við sérvalin ríki.