Tvö félög stóðu undir bróðurparti farþegaflugs í júní

Millilandaflug héðan jókst verulega í júní þegar slakað var á ferðatakmörkunum í Evrópu.

Mynd: Isavia

Fyrri hluta júnímánaðar voru landamæri víða lokuð og miklar takmarkanir giltu um ferðir fólks á milli landa. Fyrstu tvær vikur þess mánaðar voru því aðeins farnar nítján áætlunarferðir frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Þann fimmtánda júní opnaðist fjöldi Evrópuríkja og skilyrðið um tveggja vikna sóttkví var fellt niður hér á landi. Samhliða jókst flugumferðin töluvert og seinni hluta júní tóku farþegaþotur 151 sinni á loft frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt talningu Túrista.

Samtals voru áætlunarferðirnar í júní því 170 talsins en til samanburðar voru þær 2260 í júní í fyrra og rétt um þrjú þúsund í júní 2018.

Af öllum ferðum í nýliðnum júní þá stóð Icelandair undir nærri sex af hverjum tíu ferðum. Vægi Wizz air var tæpur fjórðungur eins og sjá má hér fyrir neðan.