Uppselt í fyrstu ferðina til Alicante

Tvær af stærstu ferðaskrifstofum landsins standa ætla að standa fyrir vikulegum ferðum héðan til Tenerife og Alicante í sumar.

alicante
Frá Alicante. Mynd: Unplash

Á þessum tíma árs streyma Íslendingar vanalega til Spánar en flugsamgöngur milli landanna tveggja hafa skiljanlega legið niðri síðustu mánuði. Á laugardaginn verður þráðurinn þó tekinn upp að nýju með brottför á vegum Úrval-Útsýn og VITA til Tenerife.

Á mánudaginn verður svo haldið til Alicante og í þá ferð er uppselt hjá báðum ferðaskrifstofum. Hjá VITA eru ekki heldur til sæti í brottförina þann 20. júlí.

„Fyrstu tvær ferðirnar til Alicante eru uppseldar og fyrstu brottfarir til Tenerife eru vel bókaðar þannig að við erum bjartsýn á að við séum að ná að keyra sumarið vel í gang,“ segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA.

Að sögn Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra Úrval-Útsýn, eru þar á bæ ennþá til laus sæti í ferðina þann 20. júlí. Þórunn bendir jafnframt á að ferðaskrifstofan geti skipulagt flugferðir með millilendingu til Spánar og annarra staða fyrir þá sem vilja.

Líkt og fram kom fyrir helgi þá verða allir Íslendingar skyldaðir til að fara í nokkurra daga sóttkví við komuna til landsins frá og með næstu viku. Spurður hvort þessi stefnubreyting hafi haft áhrif á söluna þá segir Þráinn lítið hafa orðið var við það og engar beiðnir um afbókanir borist vegna þessa.

Auk Úrval-Útsýn og VITA þá hefur ferðaskrifstofan Heimsferðir lengi verið umsvifamikil í skipulagninu sólarlandaferða. Þar er fyrsta brottför suður á bóginn, eftir hlé, á dagskrá í sumarlok líkt og Túristi hefur áður greint frá.