„Við gætum fyllt flugvélar til New York“

Það fóru 73 þúsund íslenskir ferðamenn til Bandaríkjanna í fyrra og 74 þúsund frá Eystrarsaltslöndunum þremur. Nú gæti stærri hluti af síðarnefnda hópnum flogið með Icelandair vestur um haf eftir samning félagsins við ríkisflugfélag Lettlands sem er jafnframt það umsvifamesta innan Eystrarsaltslandanna þriggja.

Airbaltic og Icelandair hafa gert með sér samning um samstarf í farþegaflugi. MYND: AIRBALTIC

Í flugflota lettneska flugfélagsins Airbaltic eru eingöngu nýjar Airbus A220. Þetta eru farþegaþotur af minni gerðinni með sæti fyrir 145 farþega og þær eru ekki nógu langdrægar til að komast frá Riga, höfuðborg Lettlands, til austurstrandar Bandaríkjanna. Þar með fer Airbaltic á mis við stóran kúnnahóp því eins og Martin Gauss, forstjóri félagsins, lýsti yfir í ársbyrjun þá gæti Airbaltic fyllt flugvélar af farþegum á leið til New York.

Gauss hefur þó útilokað Ameríkuflug á vegum Airbaltic í nánustu framtíð og hefur lagt áherslu á að félagið leiti frekar eftir samstarfsaðila sem geti boðið farþegunum upp á tengiflug vestur um haf. Og nú liggur fyrir að Icelandair og Airbaltic ætla sér að snúa bökum saman.

Í gær tilkynntu félögin um samstarf sem gerir það að verkum að félögin geta gefið út flugmiða hjá hvoru öðru. Þar með geta farþegar Airbaltic flogið hingað frá Riga og svo áfram með þotum Icelandair til Bandaríkjanna og Kanada þegar flug þangað hefst á ný.

Í því samhengi má nefna að í fyrra fóru 73 þúsund Íslendingar til Bandaríkjanna sem er jafn stór hópur og fór þangað frá Eystrarsaltslöndunum þremur líkt og áður hefur komið fram hér hjá Túrista.

Miðað við núverandi flugáætlun félaganna tveggja þá er hætt við að farþegar Airbaltic þurfi að bíða lengi í Leifsstöð þegar flogið er frá Bandaríkjunum og til Lettlands með viðkomu á Íslandi. Þotur Icelandair lenda nefnilega í morgunsárið á Keflavíkurflugvelli á meðan brottför Airbaltic þaðan til Riga um kaffileytið. Tengitíminn er aftur á móti stuttur þegar flogið er frá austri til vesturs.

Hið nýja samstarf gerir líka farþegum Icelandair kleift að nýta tengiflug frá Riga ef leiðin liggur til austurhluta Evrópu, Miðausturlanda eða jafnvel Norður-Afríku.

Kórónuveirukreppan hefur komið illa við Airbaltic eins og önnur flugfélög. Af þeim sökum hefur lettneska ríkið aukið eignarhlut sinn í félaginu úr áttatíu prósentum í níutíu prósent. Eini einkafjárfestirinn er danskur flugmógull.