Viðbúið að fjöldi ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja óski eftir greiðslu­skjóli

Alþingi samþykkti um miðjan júní ný lög sem veita fyrirtækjum skjól fyrir kröfuhöfum á meðan unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu. Nú hafa tvö stór fyrirtæki í ferðaþjónustu nýtt sér þessa leið og fleiri gætu fylgt á næstunni.

Island seljalandsfoss taylor leopold
Til marks um samdrátt ferðaþjónustufyrirtækja þá fækkaði hótelnóttum útlendinga hér á landi í maí um 99 prósent. Mynd: Taylor Leopold / Unsplash

Héraðs­dómur hefur fallist á að veita tveimur af dótt­ur­fé­lögum Arctic Advent­ures leyfti til að fara í greiðslu­skjól. Umsögn Gray Line á Íslandi um að nýta sér þetta nýja úrræði fékk sömu­leiðis samþykki hjá dómstólum.

Gray Line og Arctic Adventure eru tvö af stærstu ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækjum landsins en sú grein hefur farið sérstak­lega illa út úr heims­far­aldr­inum sem nú gengur yfir. Tekjur hafa hrunið og hafa mörg fyrir­tæki gripið til fjölda uppsagna vegna ástandsins.

Í tilkynn­ingu sem stjórn Gray Line sendi frá sér í lok síðustu viku segir að með því að fara í svokallað greiðslu­skjól væri jafn­ræði lána­drottna og kröfu­hafa best tryggt.

Styrmir Þór Bragason, fram­kvæmda­stjóri Arctic Advent­ures, sagði í samtali við Frétta­blaðið í gær að hið nýja úrræði um fjár­hags­lega endur­skipu­lagn­ingu, sem samþykkt var á Alþingi fyrr í sumar, gefi fyrir­tækinu færi á að endur­skipu­leggja rekst­urinn í takt við nýjan raun­veru­leika.

Af samtölum Túrista við forsvars­fólk ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja að dæma þá er viðbúið að mun fleiri fyrir­tæki í grein­inni muni óska eftir greiðslu­skjóli á næst­unni. Horfa þá flestir til þess að úrræðið gefur eigendum fyrir­tækj­anna vernd gagn­vart lána­drottnum og kemur jafn­framt í veg fyrir mögu­lega mismunun á milli kröfu­hafa.

Stjórn­endur Icelandair Group viðruðu svo mögu­leikann á að nýta þennan nýja valkost í tilkynn­ingu sem félagið sendi frá sér í viku­byrjun. Þar sagði að ef samn­inga­við­ræður við kröfu­hafa skila ekki árangri á næst­unni þá gæti tekið við allt að tólf mánaða tíma­bili þar sem öllum greiðslum til fjár­mögn­un­ar­aðila félagsins yrði frestað.