Viðbúið að fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja óski eftir greiðsluskjóli

Alþingi samþykkti um miðjan júní ný lög sem veita fyrirtækjum skjól fyrir kröfuhöfum á meðan unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu. Nú hafa tvö stór fyrirtæki í ferðaþjónustu nýtt sér þessa leið og fleiri gætu fylgt á næstunni.

Island seljalandsfoss taylor leopold
Til marks um samdrátt ferðaþjónustufyrirtækja þá fækkaði hótelnóttum útlendinga hér á landi í maí um 99 prósent. Mynd: Taylor Leopold / Unsplash

Héraðsdómur hefur fallist á að veita tveimur af dótturfélögum Arctic Adventures leyfti til að fara í greiðsluskjól. Umsögn Gray Line á Íslandi um að nýta sér þetta nýja úrræði fékk sömuleiðis samþykki hjá dómstólum.

Gray Line og Arctic Adventure eru tvö af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins en sú grein hefur farið sérstaklega illa út úr heimsfaraldrinum sem nú gengur yfir. Tekjur hafa hrunið og hafa mörg fyrirtæki gripið til fjölda uppsagna vegna ástandsins.

Í tilkynningu sem stjórn Gray Line sendi frá sér í lok síðustu viku segir að með því að fara í svokallað greiðsluskjól væri jafnræði lánadrottna og kröfuhafa best tryggt.

Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Arctic Adventures, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hið nýja úrræði um fjárhagslega endurskipulagningu, sem samþykkt var á Alþingi fyrr í sumar, gefi fyrirtækinu færi á að endurskipuleggja reksturinn í takt við nýjan raunveruleika.

Af samtölum Túrista við forsvarsfólk ferðaþjónustufyrirtækja að dæma þá er viðbúið að mun fleiri fyrirtæki í greininni muni óska eftir greiðsluskjóli á næstunni. Horfa þá flestir til þess að úrræðið gefur eigendum fyrirtækjanna vernd gagnvart lánadrottnum og kemur jafnframt í veg fyrir mögulega mismunun á milli kröfuhafa.

Stjórnendur Icelandair Group viðruðu svo möguleikann á að nýta þennan nýja valkost í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í vikubyrjun. Þar sagði að ef samningaviðræður við kröfuhafa skila ekki árangri á næstunni þá gæti tekið við allt að tólf mánaða tímabili þar sem öllum greiðslum til fjármögnunaraðila félagsins yrði frestað.