Yngsta flugfélag landsins með langlægsta tilboðið

Þrjú flugfélög buðu í áætlunarflug á vegum Vegagerðarinnar til Gjögurs, Hornafjarðar og Bíldudals. Flugfélagið Ernir sinnir þessum ferðum í dag en ekki liggur fyrir hvaða félag mun bera ábyrgð á ferðunum frá og með næsta vetri.

Bíldudalsflugvöllur. MYND: ISAVIA

Vegagerðin bauð nýverið út áætlunarflug frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði, Gjögurs og Bíldudals. Útboðið skiptist í tvo hluta, annars vegar flug til Gjögurs og Bíldudals og hins vegar til Hornafjarðar. Tilboð Flugfélags Austurlands voru töluvert undir kostnaðaráætlun verkkaupa og jafnframt mun lægri en tilboð keppinautanna, Flugfélagsins Ernis og Norlandair.

Þannig hljómaði kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar fyrir fyrri hlutann upp á 726 milljónir en Flugfélag Austurlands bauð tæpar 392 milljónir í verkið. Flugfélagið Ernir sem sinnir áætlunarferðum í dag til Gjögurs og Bíldudals bauð aftur á móti rúmar 797 milljónir. Tilboð Norlandair hljómaði upp á 612 milljónir.

Flugfélag Austurlands, sem fékk flugrekstrarleyfi í fyrra og er því yngsta flugfélag landsins, var líka með lægsta tilboðið í áætlunarflug til Hornafjarðar eða 370 milljónir króna. Vegagerðin gerir aftur á móti ráð fyrir hálfum milljarði króna í kostnað af þessum ferðum. Flugfélagið Ernir sem hefur langa reynslu af áætlunarferðum til Hornafjarðar bauð 531 milljón í verkið en Norlandair 677 milljónir samkvæmt vef Ríkiskaupa.

Verið er að fara yfir tilboðin samkvæmt svari frá Vegagerðinni. Gert er ráð fyrir að hefja flug í takt við skilmála útboðsins í byrjun vetrar.

Flugfélags Austurlands var stofnað árið 2015 og fékk flugrektrarleyfi í apríl í fyrra. Síðan þá hefur félagið stundað útsýnisflug og rannsóknarflug á vegum Náttúrustofu Austurlands að sögn Kára Kárasonar, framkvæmdastjóra. Félagið er með eina fjögurra sæta flugvél í rekstri og fimm flugmenn í hlutastörfum.

Kári og bræður hans þeir Tómas Kárason og Berg Valdimar Sigurjónsson eru eigendur flugfélagsins. Þeir eru ættaðir frá Neskaupstað og bera sterkar taugar til Austurlands og landsbyggðarinnar líkt og Kári kemst að orði í svari til Túrista.

„Flugfélag Austurlands og eigendur þess hafa mikinn áhuga á því að koma að innanlandsflugi á Íslandi og stuðla að aukinni notkun flugs á meðal almennings. Af þeim ástæðum var ákveðið að senda inn tilboð,“ segir Kári.

Aðspurður um lágt tilboð Flugfélag Austurlands, í samanburði við keppinautanna, þá segir Kári það óábyrgt að tjá sig frekar um útboðið eða rekstraráætlanir nú þegar val Vegagerðarinnar á flugrekanda liggi ekki fyrir.

Hann segir það þó trú forsvarsmanna félagsins að fargjöld skuli vera eins lág og kostur er þannig að fleiri nýti sér flugferðir. „Flugfélag Austurlands tekur öllum aðgerðum stjórnvalda fagnandi sem stuðla að aukinni notkun fólks á flugi og má þar nefna ríkisstyrktar flugleiðir og önnur úrræði eins og skosku leiðina,“ bætir Kári við.

Orðrómur er uppi um samstarf Flugfélags Austurlands við þann hóps sem vinnur að endurreisn WOW air. Spurður um það atriði þá segir Kári aðeins að stjórnendur Flugfélagsins séu í mjög góðu sambandi við fjölda aðila, bæði hér innanlands og erlendis. „Við vitum af WOW Air og fáum reglulega fréttir af þeirra starfsemi og þeir vita af okkur hér á Íslandi.“