Yngsta flug­félag landsins með lang­lægsta tilboðið

Þrjú flugfélög buðu í áætlunarflug á vegum Vegagerðarinnar til Gjögurs, Hornafjarðar og Bíldudals. Flugfélagið Ernir sinnir þessum ferðum í dag en ekki liggur fyrir hvaða félag mun bera ábyrgð á ferðunum frá og með næsta vetri.

Bíldudalsflugvöllur. MYND: ISAVIA

Vega­gerðin bauð nýverið út áætl­un­ar­flug frá Reykjavík til Hafnar í Horna­firði, Gjögurs og Bíldu­dals. Útboðið skiptist í tvo hluta, annars vegar flug til Gjögurs og Bíldu­dals og hins vegar til Horna­fjarðar. Tilboð Flug­fé­lags Aust­ur­lands voru tölu­vert undir kostn­að­ar­áætlun verk­kaupa og jafn­framt mun lægri en tilboð keppi­naut­anna, Flug­fé­lagsins Ernis og Norlandair.

Þannig hljómaði kostn­að­ar­áætlun Vega­gerð­ar­innar fyrir fyrri hlutann upp á 726 millj­ónir en Flug­félag Aust­ur­lands bauð tæpar 392 millj­ónir í verkið. Flug­fé­lagið Ernir sem sinnir áætl­un­ar­ferðum í dag til Gjögurs og Bíldu­dals bauð aftur á móti rúmar 797 millj­ónir. Tilboð Norlandair hljómaði upp á 612 millj­ónir.

Flug­félag Aust­ur­lands, sem fékk flugrekstr­ar­leyfi í fyrra og er því yngsta flug­félag landsins, var líka með lægsta tilboðið í áætl­un­ar­flug til Horna­fjarðar eða 370 millj­ónir króna. Vega­gerðin gerir aftur á móti ráð fyrir hálfum millj­arði króna í kostnað af þessum ferðum. Flug­fé­lagið Ernir sem hefur langa reynslu af áætl­un­ar­ferðum til Horna­fjarðar bauð 531 milljón í verkið en Norlandair 677 millj­ónir samkvæmt vef Ríkis­kaupa.

Verið er að fara yfir tilboðin samkvæmt svari frá Vega­gerð­inni. Gert er ráð fyrir að hefja flug í takt við skil­mála útboðsins í byrjun vetrar.

Flug­fé­lags Aust­ur­lands var stofnað árið 2015 og fékk flugrektr­ar­leyfi í apríl í fyrra. Síðan þá hefur félagið stundað útsýn­is­flug og rann­sókn­ar­flug á vegum Nátt­úru­stofu Aust­ur­lands að sögn Kára Kára­sonar, fram­kvæmda­stjóra. Félagið er með eina fjög­urra sæta flugvél í rekstri og fimm flug­menn í hluta­störfum.

Kári og bræður hans þeir Tómas Kárason og Berg Valdimar Sigur­jónsson eru eigendur flug­fé­lagsins. Þeir eru ættaðir frá Neskaup­stað og bera sterkar taugar til Aust­ur­lands og lands­byggð­ar­innar líkt og Kári kemst að orði í svari til Túrista.

„Flug­félag Aust­ur­lands og eigendur þess hafa mikinn áhuga á því að koma að innan­lands­flugi á Íslandi og stuðla að aukinni notkun flugs á meðal almenn­ings. Af þeim ástæðum var ákveðið að senda inn tilboð,” segir Kári.

Aðspurður um lágt tilboð Flug­félag Aust­ur­lands, í saman­burði við keppi­naut­anna, þá segir Kári það óábyrgt að tjá sig frekar um útboðið eða rekstr­aráætlanir nú þegar val Vega­gerð­ar­innar á flugrek­anda liggi ekki fyrir.

Hann segir það þó trú forsvars­manna félagsins að fargjöld skuli vera eins lág og kostur er þannig að fleiri nýti sér flug­ferðir. „Flug­félag Aust­ur­lands tekur öllum aðgerðum stjórn­valda fagn­andi sem stuðla að aukinni notkun fólks á flugi og má þar nefna ríkis­styrktar flug­leiðir og önnur úrræði eins og skosku leiðina,” bætir Kári við.

Orðrómur er uppi um samstarf Flug­fé­lags Aust­ur­lands við þann hóps sem vinnur að endur­reisn WOW air. Spurður um það atriði þá segir Kári aðeins að stjórn­endur Flug­fé­lagsins séu í mjög góðu sambandi við fjölda aðila, bæði hér innan­lands og erlendis. „Við vitum af WOW Air og fáum reglu­lega fréttir af þeirra starf­semi og þeir vita af okkur hér á Íslandi.”