10.379 Bandaríkjamenn og 74 Íslendingar til Króatíu

Króatía er eina landið innan ESB sem er opið fyrir ferðafólki frá Bandaríkjunum.

Frá Dubrovnik í Króatíu. Mynd: Spencer Davis / Unsplash

Um miðjan júlí voru ferðatakmarkanir gagnvart fjórtán ríkjum utan Evrópusambandsins og Schengen svæðisins afnumdar. Þar með máttu Japanir, Kanadamenn, Ástralir og fleiri ferðast innan svæðisins og þá líka til Íslands.

Bandaríkjamenn fengu þó ekki inngöngu nema í Króatíu því þar ákváðu stjórnvöld að fara sína eigin leið þar sem landið ekki meðlimur í Schengen samstarfinu. Þó er gerð krafa um að bandarískir túristar framvísi neikvæðum niðurstöðum í nýju Covid-19 prófi við komuna til Króatíu.

Þetta ferðafrelsi hafa ófáir Bandaríkjamenn nýtt sér því fyrstu tuttugu og þrjá dagana í ágúst komu 10.379 bandarískir túristar til Króatíu. Þeir voru sex sinnum fleiri á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í svari króatíska ferðamálaráðsins við fyrirspurn Túrista.

Þar segir jafnframt fram að 74 Íslendingar hafa heimsótt Króatíu nú í ágúst en þeir voru nærri fimm hundruð á sama tímabili í fyrra. Eins og gefur að skilja þá má gera ráð fyrir að hluti af þessum bandarísku og íslensku túristum séu í raun búsettir á meginlandi Evrópu.

Samtals gera tölur ferðamálayfirvalda í Króatíu ráð fyrir að bandarísku feðramennirnir hafi staðið undir nærri 49 þúsund gistinættum það sem af er ágúst en þeir íslensku um ellefu hundrað.

Á sunnudag bættist Króatía svo á lista Alþjóðlega ferðamálaráðsins (World Travel & Tourism Council) yfir þau lönd sem uppfylla kröfur um sóttvarnir og hreinlæti á ferðamannastöðum.

Ferðamálaráðið hefur síðan í maí útdeilt svokölluðum „Safe Travel Stamp“ til þeirra landa sem sýna fram á að þar hefur verið gripið til sérstakra ráðstafanna til að auðvelda fólki persónulegar sóttvarnir nú á tímum Covid-19.