16,5 milljarða lán ef 20 milljarðar fást í hlutafjárútboði

Íslensk stjórnvöld ætla að veita Icelandair Group ríkisábyrgð á lánalínu. Fyrst þarf fyrirtækið þó að afla nýs hlutafjár en þar hefur markið verið fært niður.

Ein af MAX þotum Icelandair. MYND: BERLIN AIRPORT

Hlutafjárútboði Icelandair var í gærkvöld seinkað fram í september. Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér af því tilefni sagði að viðræður við stjórnvöld um lánalínu væru á lokastigi. Viðræður um útfærslu hennar hafa nú staðið yfir síðan í lok apríl þegar ríkisstjórnin gaf vilyrði fyrir opinberum stuðningi.

Nú liggur svo fyrir að íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að gangast í ábyrgð fyrir 120 milljón dollara lánalínu. Það jafngildir um 16,5 milljörðum króna á núverandi gengi. Ábyrgðin mun nema níutíu prósent lánsfjárhæðinni en hún er háð samkomulagi um skilmála hennar, samþykki Alþingis og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Upphaflega stóð til að félagið myndi afla 200 milljón dollara í nýtt hlutafé en það jafngilti um 30 milljörðum króna í vor þegar markmiðið var fyrsta sett fram. Á gengi dagsins nemur upphæðin rúmlega 27 milljónir króna.

Ekki hafa fengist svör frá stjórnendum Icelandair um ástæður þess að þeir telji sig núna þurfa minna hlutafé en áður.

Það eru Landsbankinn og Íslandsbanki, sem báðir eru í eigu hins opinbera, sem sjá um útfærslu fyrrnefndrar lánalínu ríkisins til Icelandair. Bankarnir tveir eru í dag meðal stærstu lánadrottna flugfélagsins.